Fannst látinn um borð
Maðurinn sem leitað var að í Fáskrúðsfirði fyrrihluta dagsins er látinn. Flak fiskibátsins sem hvolfdi skammt frá eynni Skrúð í morgun, var dregið til hafnar í Fáskrúðsfirði í dag og fannst lík mannsins, að sögn lögreglu, um borð. Ekki er unnt að greina frá nafni hins látna.
Félaga mannsins, en þeir voru tveir um borð, var bjargað um borð í fiskibát í morgun, eftir að hann hafði skotið upp neyðarblysi. Hins var leitað fram á miðjan dag og tóku um 50 björgunarsveitarmenn þátt í leitinni, fjölmargir bátar frá Austfjarðahöfnum, lögreglumenn og fólk Landhelgisgæslunnar.
Hífa átti bátinn á bryggju í kvöld og verður hann í kjölfarið rannsakaður til að grafast fyrir um orsök slyssins.