Félag ljóðaunnenda hlaut menningarverðlaun SSA

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi er handhafi menningarverðlauna Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA). Verðlaunin voru afhent á haustþingi sambandsins sem haldið var í síðustu viku.

Félagið var stofnað á Stöðvarfirði árið 1996 og hefur lengi verið eitt ötulasta útgáfufélag ljóðabóka hérlendis. Fyrsta bókin, Raddir að austan, var gefin út árið 1999. Hún innihélt samsafn ljóða eftir ýmis austfirsk skáld.

Síðan eru bækurnar orðnar á fimmta tug og áfram bætist í hópinn. Nokkrir dagar eru síðan bókin „Handan blárra fjalla“ kom úr prenti en hún inniheldur ljóð eftir Iðunni Steinsdóttur, sem fædd er á Seyðisfirði. Hún er löngu landskunn fyrir ritstörf sín, einkum leikverk og barnabækur, en hefur ekki áður gefið út ljóðabók.

Í umsögn SSA er komið inn á að Félag ljóðaunnenda hafi bæði gefið út fyrstu verk höfunda auk þess að varðveita menningarverðmæti sem ella hefðu getað glatast. „Þannig er hlúð að austfirskum skáldum, þekktum og óþekktum, og haldið í heiðri minningu þeirra austfirsku skálda sem látin eru.“ Bent er á að stór hluti bóka félagsins sé eftir konur, en á þær halli gjarnan hjá öðrum forlögum. Félagið hefur líka nýtt sér tækifæri sem felast í Uppbyggingarsjóði Austurlands til að styðja við útgáfuna.

Auk útgáfunnar stendur félagið reglulega fyrir ljóðaviðburðum en í umsögn SSA er því lýst sem hæglátu og bætt við að það láti lítið fyrir sér fara. Síðustu ár hafi það þó vakið athygli fyrir gott starf og afar vandaðar bækur. Það hafi orðið til þess að það fékk verðlaun á degi íslenskrar tungu árið 2020.

Magnús Stefánsson á Fáskrúðsfirði hefur verið formaður félagsins frá upphafi. Haft er eftir honum að hann sé afar ánægður með viðurkenninguna og stuðningur af Austurlandi, meðal annars úr uppbyggingarsjóðnum, hafi reynst félaginu vel.

Menningarverðlaun SSA eru veitt árlega einstaklingi, stofnun eða samtökum á Austurlandi fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar. Síðsumars var óskað eftir tilnefningum til verðlaunanna í ár. Tólf tilnefningar bárust.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar