Félagsheimilið reyndist of lítið fyrir afmælishátíð Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga
Hátíð í tilefni af 90 ára afmæli Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga hefur verið færð úr félagsheimilinu Skrúði inn í íþróttahúsið á Fáskrúðsfirði vegna þess hversu margir munu mæta. Um leið er fagnað 50 ára afmæli togarans Ljósafells og frumsýnd ný heimildamynd um feril hans.„Félagsheimilið getur tekið um 220 manns en það mæta 350.
Við buðum öllu starfsfólki, félagsfólki og fleiri gestum sem tengjast okkur. Meðal annars Bolli Magnússon, skipaverkfræðingur sem var yfir smíði Ljósafells í Japan,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, kaupfélagsstjóri.
Hátíðin verður haldin annað kvöld þar sem boðið verður upp á mat og skemmtun. Meðal annars verður frumsýnd heimildamynd sem Guðmundur Bergkvist, myndatökumaður hjá RÚV, hefur gert um skipið.
„Hann hefur 53 mínútna langa mynd um Ljósafellið. Sagan er tekin alveg frá því það var smíðað í Japan. Það voru til myndir á 8 mm filmu frá þeim tíma sem merkilegt er að geta sýnt nú 50 árum síðar,“ segir Friðrik.
Kaupfélagið kemur að skipinu í gegnum Loðnuvinnsluna en kaupfélagið á 83% í útgerðinni. „Það þýðir að aldrei er hægt að selja kvótann úr byggðarlaginu og að þegar vel gengur þá fer arðurinn ekki út úr samfélaginu heldur nýtist til uppbyggingar, eins og reyndin hefur verið undanfarin ár.“