Ferðafagnaður 18. apríl
Nú er í undirbúningi Ferðafagnaður á landsvísu (hét áður Ferðalangur í heimabyggð) sem er hugsaður sem kynningar- og hátíðisdagur íslenskrar ferðaþjónustu, 18. apríl. Grunnhugmyndin er að ferðaþjónustan veki athygli á skemmtilegri og víðfeðmri starfsemi sinni og geri almenning meðvitaðri um allt það góða sem ferðaþjónustan hefur upp á að bjóða. Viðburðurinn hefur vaxið ár frá ári. Reynslan sýnir að íbúar kunna vel að meta að kynnast þeirri fjölbreyttu afþreyingu sem er í boði á heimaslóð. Fyrir ferðaþjónustuna er þetta frábært tækifæri til að kynna það sem er í boði fyrir ferðamenn.
Markmið Ferðafagnaðar er tvíþætt: Annars vegar að kynna það sem er í boði fyrir erlenda sem innlenda ferðamenn því vel upplýstir heimamenn sem þekkja fjölbreytta möguleika í boði eru bestu sölumenn sem starfa í þágu ferðaþjónustunnar. Hins vegar er markmið Ferðalangs að ferðaþjónustan bjóði heimamenn velkomna með því að opna sínar dyr með því að veita verulegan og sýnilegan afslátt af sinni þjónustu og/ eða setji saman sérstaka ferðatengda dagskrá (göngur, siglingar, kaffiveitingar og fleira kemur til greina) í þágu viðburðarins.