Ferðaáætlun á Víknaslóðir tilbúin
Ferðafélag Íslands og Ferðafélag Fljótsdalshéraðs hafa kynnt ferðaáætlanir á Víknaslóðir fyrir komandi sumar.
Fyrsta ferðin verður farin í lok júní en þema hennar eru blóm og fuglar. Um sama leyti verður útivistar- og menningarhelgi á Borgarfirði eystra undir yfirskriftinni „Helgi á göngu“ en hún er haldin í minningu ferðamála- og ungmennafrömuðarins Helga Arngrímssonar.
Í júlí verða tvær aðskildar ferðir á Víknaslóðir, annars vegar á norðurhlutann, hins vegar suðurhlutann. Í byrjun ágúst verður önnur ferð með áherslu á blómaskoðun og jarðfræði og síðan ferð á Víknaslóðir til heiðurs Helga en sonur hans, Hafþór Snjólfur Helgason, verður fararstjóri í ferðinni.
Seinasta ferðin verður farin í september en þá verður Dyrfjallatindur klifinn.
Nánari upplýsingar um ferðirnar má finna á vef Borgarfjarðar eystri.