Snjórinn kom á óvart en heldur ótrauður áfram Hringveginn

„Ísland er síðasta landið á ferð minni um Norðurlöndin og nú hef ég tæpa viku til að aka hringinn og klára túrinn,“ segir Shahaf Galil frá Ísrael, en hann kom til landsins á þriðjudag með Norrænu og ætlar hringinn um landið. Sem væri ekki í frásögur færandi væri hann ekki á glæsilegum svörtum Ferrari á low-profile dekkjum.

Shahaf bar sig vel þegar blaðamaður rakst á hann að taka eldsneyti á Egilsstöðum áður en hann hélt norður til Akureyrar. Eðli máls samkvæmt er afar lágt undir Ferrari-bifreiðar og hann viðurkenndi að hafa aðeins fengið fyrir hjartað þegar hann hóf ferðina yfir Fjarðarheiði og lenti þar í fyrsta snjónum í ferðinni, Kappinn hefur undanfarnar vikur ekið kringum 20 þúsund kílómetra um Danmörk, Finnland, Sviþjóð, Noreg, Færeyjar og Ísland er lokastoppið á þessum mikla túr.

„Ég er ekkert banginn við neitt en auðvitað er ég kannski helst til seint á ferð. En vegirnir hafa hingað til verið mjög fínir og ég kýs að hafa ekki áhyggjur af hugsanlegum vandræðum fyrr en þau þá gerast. Auðvitað fylgist ég vel með veðurspám og flýti eða seinka ferðinni ef það lítur illa út. Þangað til nýt ég ferðarinnar.“

Shahaf hefur reyndar oft áður farið slíka ofurtúra og ávallt á Ferrari bifreiðum. Hann ók tæpa 20 þúsund kílómetra um norðurhluta Afríku og svipaða vegalengd um lönd á Balkanskaganum. Þá nýtti hann fyrsta daginn hérlendis til að aka um Austfirðina.

Þó ökuþórinn hafi aðeins verið á landinu í sólarhring er hann stórhrifin af því sem fyrir augu bar. „Ísland er strax komið á pall með Noregi sem langfallegustu staðirnir í þessari ferð. Stórkostlegt og um leið hrikalegt landslag hvert sem litið er og ég þó aðeins séð brot af því sem hér er að finna.“

Mynd Shahaf Gilal

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.