Fetar sjaldan í fótspor annarra

Vopnfirski næringarfræðingurinn Elísabet Reynisdóttir er sjálfstætt starfandi í faginu og hefur að undanförnu verið reglulegur gestur í síðdegisútvarpi Bylgjunnar þar sem hún ræðir heilsutengd málefni við þáttastjórnendur. Elísabet er í yfirheyrslu vikunnar á Austurfrétt.


Elísabet ætlar mun bæði vinna við næringarfræðina í sumar og einnig verður hún verkefnastjóri bæjarhátíðarinnar Vopnaskaks.

„Þetta leggst vel í mig og ég hlakka til að eyða sumardögunum á Vopnafirði. Vinnan er bara á byrjunarstigi og Vopnaskap verður allskonar og örugglega með eitthvað breyttu sniði, þannig er ég bara – feta sjaldnast í fótspor annarra og finnst mér miklu skemmtilegra að fara út fyrir stíginn og prófa aðrar leiðir.

Á teikniborðinu er einnig verkefni í samstarfi við ferðaþjónustuna Discover Iceland þar sem ég kynni ferðafólki íslenska matargerð. Um er að ræða jeppaferðir sem og aðrar ferðir hérlendis. Þetta býður upp á skemmtileg tækifæri, en ég þekki landið nokkuð vel og matarsögu íslendinga og get því eldað, frætt og ferðast um landið í leiðinni.“
 

Viðtal við Elísabetu um „hráfæðiskúr“ Sigmundar Davíðs má heyra hlusta á hér


Fullt nafn: Elísabet Reynisdóttir.

Aldur: 48 ár.

Starf: Næringarfræðingur með allskonar hlutverk.

Börn: Auður (16) og Reynir (21)


Hvað er í töskunni þinni? Lyklar, kort, nótur og eitthvað snyrtidót sem ég gleymi samt að nota.

Hvað finnst þér um þorramat? Dásamlegur og fyrir utan hversu hollur hann er, súr hvalur er samt bestur.

Trúir þú á heilsukúra? Nei – það geri ég sko ekki, en ég trúi á heilsu og góðan lífsstíl. Lífið er ákvörðun og heilsutengd hegðun þar með.

Hver er þinn helsti kostur? Ótrúlega jákvæð, líklegast stundum aðeins of og svo er það kannski kostur að ég er svoldið gleymin og er því ekkert að erfa eitthvað leiðinlegt sem er liðið.

Hver er þinn helsti ókostur? Sunnan við mig og óskipulögð.

Settir þú þér áramótaheit? Já og nei – um áramótin var ég ákveðin að árið 2017 yrði dásamlegt ár og það er kannski áramótaheit eða loforð til mín frá mér.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Gott fólk sem ég hef hitt á lífsleiðinni. Ég get verið heilluð af fólki, það er gaman að kynnast hverri manneskju, allir eiga sér sögu og ótrúlega gaman að heyra sögu hvers og eins. Með hverri sögu er hægt að samsama sig eða þakka fyrir að maður er ekki staddur á þeim stað eða að ná aðdáun á störfum eða hegðun einstaklings þannig að maður breytir sínu mynstri og lífi, þar með er komin fyrirmynd.

Topp þrjú á þínum „Bucket list“? Fara í heimsreisu, vinna í Afríku við hjálparstarf og bæta við mig menntun.

Draumastaður í veröldinni? Leyniströnd í Mexico, usss má ekki segja, en ég er sko að fara þangað.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Smjör, mjólk og Dijon sinnep.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Sumarið, bjartar nætur og njóta útiverunnar.

Ef þú ætlar að elda eitthvað fljótlegt og gott, hvað er það þá? Léttsteiktur þorskur.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi? Rauðisandur fyrir vestan og Sandvík á Vopnafirði.

Hver væri titilinn á ævisögunni þinni? Konan sem lifði drauma sína en týndi tímanum og bílnum sínum of oft.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Föstudagur, þeir bjóða upp á möguleika, t.d. að gera gott plan fyrir helgina og fara yfir liðna viku.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Dr. Martin Luther King – ekki spurning og Michelle Obama, fyrrum forsetafrú og einnig Malala Yousafzai.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika og jákvæðni.

Duldir hæfileikar? Já, ég á það til að dreyma fyrir hlutunum.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Vera á Vopnafirði fram á laugardagskvöld, fljúga suður, fara á salsanámskeið á sunnudag og leikhús að sjá Andaðu með þeim Heru Hilmarsdóttur og Þorvaldi Davíð Kristjánssyni í Iðnó.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar