Fjarðabyggð í úrslitum Útsvars: Hærri púlsinn fyrir þessar keppnir en aðrar
Fjarðabyggð mætir Reykjavík í úrslitum spurningakeppninnar Útvars í Sjónvarpinu í kvöld klukkan 20:30. Liðsmenn Fjarðabyggðar segjast vel undirbúnir fyrir spennandi keppni.
„Við erum virkilega vel stemmd og spennt fyrir þessu verkefni. Ég viðurkenni samt fúslega ð púlsinn er hærri fyrir þessa keppni heldur en aðrar,“ segir Kjartan Bragi Valgeirsson.
Hann myndar Fjarðabyggðarliðið ásamt þeim Sigrúnu Birnu Björnsdóttur og Jóni Svani Jóhannssyni. Kjartan býr í Reykjavík þar sem hann er við nám en hin tvö eru eystra.
Kjartan kom því austur um síðustu helgi til að æfa. Hann segir að áherslan hafi verið lögð á leikinn auk þess sem æft verði í dag. Þess á milli sé „reynt að fylgjast með fréttum og skerpa á þekkingunni.“
Hann segir Fjarðabyggðarliðið tilbúið í slaginn í kvöld. „Merkilegt en satt þá eru allir liðsmenn okkar líkamlega heilir. Mótherjarnir eru fantagóðir og við þurfum að mæta þeim af hörku.“