Fjarðabyggð varar við orku- og auðlindaskatti

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur sent frá sér ályktun vegna áforma um álagningu orku- og auðlindaskatts. Bæjarráð samþykkti samhljóða á fundi sínum 20. október sl. að beina því til þingmanna kjördæmisins að þeir beiti sér gegn samþykkt tillagna í fjárlagafrumvarpi um álagningu slíks skatts og leggur áherslu á að forsendur þróunar og nýsköpunar í sveitarfélaginu verði ekki rýrðar með slíkri sértækri skattheimtu.

skattur.jpg

Á L Y K T U N

 

vegna áforma stjórnvalda um álagningu orku- og auðlindaskatts

 

Bæjarráð Fjarðabyggðar beinir því til þingmanna Norðausturkjördæmis að þeir beiti sér gegn samþykkt tillagna í fjárlagafrumvarpi um álagningu orku- og auðlindaskatts.  Sveitarfélagið hefur á umliðnum árum verið í umbreytingar- og þróunarferli sem enn er í miðjum klíðum.  Tæknilega fullkomnasta álver í veröldinni tók til starfa í Fjarðabyggð á árinu 2006 og þar er nú vinnustaður 450 starfsmanna og afleidd störf langdrægt jafnmörg. Auk nýjustu tækni hafa nýtt verklag og vönduð verkferli hjá Fjarðaáli vakið eftirtekt og margvíslegar opinberar viðurkenningar m.a. í öryggis- og vinnuverndarmálum, umhverfismálum og jafnréttismálum, hafa fallið fyrirtækinu í skaut.  Í fjárfestingarsamningi fyrirtækisins er áskilnaður um að starfsemi þess stuðli að þróun vísinda- og tækniþekkingar á Íslandi.  Bæjaryfirvöld leggja áherslu á að forsendur þróunar og nýsköpunar í sveitarfélaginu og annars staðar á landinu verði ekki rýrðar með sértækri skattheimtu eins og álagningu orku- og auðlindaskatts.

 

Fjárfestingar vegna uppbyggingar stóriðju á Austurlandi hlaupa á hundruðum milljarða króna – hjá Landsvirkjun, Alcoa og ýmsum öðrum fyrirtækjum, íbúum og íslenska ríkinu.  Sveitarfélagið er ekki undanskilið – það hefur m.a. fjárfest í skólum, leikskólum, íþróttamannvirkjum, höfn og veitum til að geta þjónað nýjum fyrirtækjum og nýjum íbúum og nýtt tækifærin sem bjóðast á umbreytingatímum.  Allar fjárfestingar sveitarfélagsins eru með langtímasjónarmið í huga og byggjast á því að forsendurnar sem lagt var upp með standist.  Uppbyggingin nýtist öllum íbúum – gömlum og nýjum – og vaxandi þjónusta er til hagsbóta öllum fyrirtækjum og atvinnurekstri á svæðinu.  Sértæk skattheimta, sem bitnar á starfsemi og áformaðri frekari uppbyggingu Fjarðaáls, mun óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á stöðu  annarra fyrirtækja í Fjarðabyggð og áætlanir þeirra um þjónustu og uppbyggingu í sveitarfélaginu.  Ekki þarf að orðlengja um það hver áhrif samdráttur í atvinnulífinu mun hafa á hag íbúa  í sveitarfélaginu

 

Bæjarráð minnir á að öflugt atvinnulíf í Fjarðabyggð er mikilvæg undirstaða þeirra útflutningstekna sem landsmenn allir þurfa á að halda til að komast út úr efnahagskreppunni.  Ál er helsta útflutningsvara landsins og hlutfall þess í útflutningi vöru og þjónustu árið 2008 var tæp 28% en rúmlega 40% álútflutnings er úr Fjarðabyggð.  Hlutfall sjávarútvegs í útflutningi vöru og þjónustu var rösk 26% á árinu 2008 og hlutur hinna sterku sjávarútvegsfyrirtækja í sveitarfélaginu vegur afar þungt í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.  Miklar fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja í Fjarðabyggð, einkum í uppsjávarvinnslu, hafa bara á þessu ári skilað þjóðarbúinu milljörðum króna í auknu aflaverðmæti síldar og makríls.

 

Álagning orku- og auðlindaskatts bitnar með sértækum hætti á útflutningsfyrirtækjunum sem eru undirstaða atvinnulífs í Fjarðabyggð og mun hafa alvarleg áhrif á atvinnustig.  Stærsti vinnuveitandinn í Fjarðabyggð, Alcoa Fjarðaál, mun draga verulega úr umsvifum í sveitarfélaginu, flytja störf úr landi og hætta við fyrirhugaðar framkvæmdir.  Óvissa  í sjávarútvegi dregur úr atvinnuöryggi þar.  Álagning orku- og auðlindaskatts mun því á endanum koma verst niður á hinum almenna íbúa í sveitarfélaginu, lækka  ráðstöfunartekjur  heimila og draga úr gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins.

 

Um leið og bæjarráð hvetur alþingismenn og stjórnvöld til þess að standa vörð um heildarhagsmuni og grípa ekki til ráðstafana sem kippa stoðum undan framförum og nýsköpun til framtíðar er minnt á þá ábyrgð sem ríkisvaldið ber bæði gagnvart íbúum í sveitarfélaginu og fyrirtækjum sem hér hafa haslað sér völl.  Allir þessir aðilar verða að geta treyst því að forsendum sé ekki breytt eftir á og grundvelli kippt undan miklum fjárfestingum.

 

 

Samþykkt samhljóða í bæjarráði Fjarðabyggðar 20. október 2009.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.