Fjarðarheiðin vettvangur Íslandsmeistaramóts í snjókrossi

„Við byrjum lætin strax milli 9 og 10 um morguninn þegar menn hefja æfingar og tímatökur fyrir mótið sjálft sem ætti að hefjast um eða uppúr hádeginu,“ segir Steinþór Guðni Stefánsson úr akstursíþróttaklúbbnum Start, en klúbburinn er að búa sig undir að halda lokaumferð Íslandsmótsins í snjókrossi (snocross) á Fjarðarheiði á laugardaginn kemur.

Að sögn Steinþórs má gera ráð fyrir að heildarfjöldi keppenda á laugardaginn verði kringum 40 manns eða svo sem er svipaður fjöldi og verið hefur í fyrri umferðum Íslandsmótsins í vetur en hafist verður handa við brautagerðina á Sumardaginn fyrsta. Brautin að þessu sinni verður fyrir ofan skíðasvæðið í Stafdal en þar er ágætt pláss fyrir slíka keppni og ekki síður nægt svæði fyrir gesti og gangandi.

„Þetta er auðvitað lokamótið í keppninni þessa vertíðina og það má búast við harðri baráttu. Svæðið sem um ræðir er bráðskemmtilegt og við gerum brautina eins fjölbreytta og hægt er. Þarna verður klúbburinn með einhverjar veitingar fyrir gesti og vel hægt að gera sér heilan glaðan dag á fjallinu með okkur. Svo er veðurspáin aldeilis flott svo enginn ætti að láta það aftra sér.“

Mynd: Snjókross eða snocross á frummálinu nýtur sívaxandi vinsælda víða um heiminn og Steinþór segir áberandi fleiri í sportinu í dag en verið hefur undanfarin ár. Mynd Flickr.com/Nuewieser

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.