Fjölmenn æskulýðsmessa gleðinnar í Vopnafjarðarkirkju: Myndir
Unglingar í æskulýðsfélaginu Kýros á Vopnafirði söfnuðu í síðustu viku 65 þúsund krónum til styrktar hjálparstarfi í þágu þrælabarna á Indlandi með kaffisölu í framhaldi af árlegri æskulýðsmessu í Vopnafjarðarkirkju um 150 manns mættu til messunnar.
Undirbúningur fyrir messuna núna og kaffisöluna hefur staðið yfir í nokkurn tíma, en á laugardag og sunnudag var bakað og safnaðarheimilið og kirkjan skreytt í tilefni dagsins með brosköllum, blöðrum og litríkum borðum, en þema messunnar var „Gerið gleði mína fullkomna“ (Fil. 2.2). Messan var með nýstárlegu sniði með áherslu á fjölbreytni í tónlistar-og leikatriðum á léttum nótum með gleðina í fyrirrúmi, þar sem margir komu fram ásamt kirkju-og barnakórnum.
„Undanfarin ár hafa unglingarnir í æskulýðsfélagi Hofsprestkalls – Kýros – á Vopnafirði vakið athygli fyrir frumkvæði og dugnað. Þar stendur hæst Vinavikan á haustin. Með framtakinu finna unglingarnir, að þau geta haft áhrif til góðs með því að láta til sína taka, auðgað mannlífið á Vopnafirði og glætt von um betri heim og bjarta framtíð,“ segir í tilkynningu.
Myndir: Magnús Már Þorvaldsson