Fjölbreytt blanda um borð í Rithöfundalestinni

Hópur rithöfunda leggur í dag upp í árlega upplestrarferð um Austfirði undir merkjum Rithöfundalestarinnar.

Það var árið 1992 sem Sigríður Dóra Sverrisdóttir, menningarfrömuður á Vopnafirði, setti saman fyrsta rifhöfundahópinn sem fór um fjórðunginn til að lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Síðan hefur hefðin haldist þótt skipt hafi verið yfir í myndbandaform árið 2020 í Covid-faraldrinum og einu sinni varð að aflýsa vegna veðurs.

Í lestinni að þessu sinni eru: Arndís Þórarinsdóttir með barnabókina Mömmuskipti; Bergþóra Snæbjörnsdóttir með skáldsöguna Duft - söfnuður fallega fólksins; Nanna Rögnvaldardóttir með skáldsöguna Valskan; og Eskfirðingarnir Sævar Guðjónsson og Þórhallur Þorvaldsson með bókina um Palla í Hlíð - stilkur úr lífshlaupi ævintýramanns.

„Þetta er fjölbreytt blanda. Nanna er þekktari fyrir matreiðslubækur sínar en kemur hér sterk inn með sína fyrstu skáldsögu. Arndís er vinsæll barnabókahöfundur og sú eina sem tvisvar hefur fengið Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka.

Bergþóra hefur verið þekkt fyrir að taka málefnin öðrum tökum en aðrir og síðan koma Þórhallur og Sævar frá Eskifirði til að tala um vin sinn Páls Leifsson,“ segir Skúli Björn Gunnarsson hjá Gunnarsstofnun, sem heldur utan um upplestrana.

Ferðin hefst á Uss bistro í Kaupvangi á Vopnafirði í kvöld klukkan 20:30 og á morgun er lesið upp í Löngubúð á Djúpavogi klukkan 20:00. Helgin er ströng. Á laugardag er lesið í Safnahúsinu í Neskaupstað klukkan 14:00 en Skaftfelli á Seyðisfirði klukkan 20:00. Á sunnudag er lesið á Skriðuklaustri klukkan 13:30 en KHB ölstofu á Borgarfirði klukkan 20:00.

Viðburðurinn á Skriðuklaustri verður í beinu streymi. Þar verða kynnt til leiks fleiri verk sem tengjast Austurlandi, meðal annars útgáfa Félags ljóðaunnenda á Austurlandi þetta árið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.