Fjölbreytt flóra á Skáldaþingi í Breiðdalssetri
Austfirskum skáldum verða gerð góð skil á Skáldaþingi sem haldið verður í Breiðdalssetri á morgun. Bæði verður þar fjallað um rithöfunda á svæðinu auk þess sem höfundar af fleiri en einni kynslóð lesa upp úr verkum sínum.Hefð hefur myndast fyrir því að halda málþing í setrinu í lok hvers sumars. Oftast hafa þau tengst jarðfræði, enda er setrið byggt upp í kringum vinnu breska jarðfræðingsins George Walker en á öðrum árum hefur tengingin verið við samfélagið í Breiðdal.
Í setrinu er stofa til minningar um Stefán Einarsson, prófessor í norrænum fræðum við John Hopkins háskólann í Bandaríkjunum, en hann ólst upp á Höskuldsstöðum í Breiðdal. Stefán var einnig afkastamikill rithöfundur og á efri árum ferðaðist hann um heimahagana og safnaði örnefnum.
Í gegnum Stefánsstofu vaknaði hugmyndin um Skáldaþingið. „Í fyrra vaknaði sú hugmynd að fjalla um austfirsk skáld og rithöfunda,“ útskýrir Hákon Hansson, formaður stjórnar Breiðdalsseturs.
Hann segir að undirbúningurinn hafi að miklu leyti verið í höndum Vésteins Ólafssonar, fyrrverandi forstöðumanns Árnastofnunar. Vésteinn er einn af stjórnarmönnum setursins og eru foreldrar hans úr Breiðdal en þau fluttu þaðan þegar hann var mjög ungur. „Hann hefur sýnt Breiðdalnum mikla tryggð og ljóst að þau töluðu alltaf vel um dalinn,“ segir Hákon.
Heiðursgestur þingsins verður Vilborg Dagbjartsdóttir en hún er alin upp á Seyðisfirði. Þá verða erindi um Einar Braga og Sigurjón Jónsson úr Snæhvammi við Breiðdalsvík, en Sigurjón er eitt þeirra sextán skálda sem Tómas Guðmundsson minnist á í ljóðinu Austurstræti.
Eins minnast Breiðdælingar Guðjóns Sveinssonar rithöfundar sem lést fyrir tíu dögum. Guðjón var einn af hvatamönnunum að stofnun Breiðdalsseturs og varðveislu gamla kaupfélagshússins sem það er í.
Af yngri skáldum má nefna Ingunni Snædal, Jónas Reyni Gunnarsson, Svein Snorra Sveinsson og Steinunni Ásmundsdóttur sem lesa upp úr verkum sínum.