Fjöldi viðburða á Bleikum október á Austurlandi

Bleikur október er genginn í garð á Austurlandi sem víðar en á þeim tíma er hugmyndin að minna landann bæði á að töluverður fjöldi fólks lætur í minni pokann fyrir hinum ýmsu krabbameinum en ekki síður að þúsundir lifa slíkt af með góðri hjálp nærstaddra og fjærstaddra í samfélaginu.

Líkt og öll önnur Krabbameinsfélög landsins lætur Krabbameinsfélag Austfjarða ekki sitt eftir liggja í þessum bleika mánuði. Félagið hefur í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu og aðra velunnendur sett upp sérstaka dagskrá tileinkaða öllum þeim er samstöðu sýna þeim er kljást við krabbameinin að sögn Hrefnu Eyþórsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins fyrir austan.

Samstaða er orð sem við hér á okkar svæði þekkjum vel og notum og njótum i hvívetna. Bleikur október er þar engin undantekning. Við þekkjum öll einhvern i nærumhverfinu sem hefur háð baráttuna við krabbamein og stundum vitum við ekki hvernig við getum stutt við bakið á viðkomandi. Þetta átak er auðvitað í fjáröflunarskyni en ekki síður til að minna okkur á að öll þurfum við stuðning og umhyggju þegar veikindi steðja að.

Hrefna hvetur fyrirtæki og stofnanir til að vekja athygli á málefninu. Það til dæmis hægt með því að bæta bleikum lit í fána eða merki viðkomandi en það hefur Fjarðabyggð til dæmis gert á sínu merki á netinu. Það líka einmitt í Fjarðabyggð þar sem félagið hefur sett upp veglega dagskrá tileinkaða mánuðinum en finna má alla þá viðburði á fésbókarvef Krabbameinsfélags Austfjarða.

Krabbameinsfélag Austurlands lætur sitt heldur ekki eftir liggja en félagið fékk fyrir skömmu eina milljón króna gjöf frá Kvenfélaginu Bláklukku. Þar á bæ eru fyrirtæki í Múlaþingi hvött til að flagga bleika litnum hvar sem því verður við komið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.