Fjölsóttar lestrarstundir fyrir börn á bókasafni Reyðarfjarðar

Á Bókasafninu á Reyðarfirði hafa í vetur verið vikulegar lestrarstundir fyrir börn. Þau hafa síðan dregið fleiri fjölskyldumeðlimi á bókasafnið.

„Ég sendi út hvort það væru sjálfboðaliðar tilbúnir til að lesa og þeir reyndust þrír. Við ákváðum að stíla á þennan tíma, 16:30, á fimmtudögum því flestum hentar að koma yfir götuna þegar leikskólinn er búinn kl. 16 áður en farið er heim,“ segir Guðrún Rúnarsdóttir, forstöðumaður bókasafnsins í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Fyrsta lestrarstundin var um miðjan október og fékk strax frábærar viðtökur. „Það fylltist allt. Forstofan var full af yfirhöfnum. Ég fékk lánað fatahengi fyrir þá næstu. Aðsóknin hefur verið mjög góð í flest skiptin,“ segir hún.

Hún segir hugmyndina hafa kviknað út frá áhuga leikskólans á að heimsækja bókasafnið. Skólahóparnir komu hver af öðrum en síðan varð Guðrún vör við að börnin höfðu frumkvæðið að heimsókn á bókasafnið. „Í heimsóknunum gaf ég krökkunum bókamerki og hvatti þau til að koma aftur. Þá voru þau að koma með foreldrana, jafnvel fólk sem ég vissi ekki að byggi hér!

Ef foreldrar koma reglulega með börnin á bókasafnið frá 3-4 ára aldri þá verða þau dugleg að lesa, það er mín reynsla. Endilega líka að hafa bók í hönd heima, ekki bara síma. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft en ekki bara sagt.“

Lengri útgáfa birtist í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.