Fjörutíu ár frá strandi Mávsins

Um helgina voru liðin fjörutíu ár frá því flutningaskipið Mávurinn strandaði á leið sinni frá Vopnafirði. Mastur skipsins stóð lengi upp úr sandinum í botni fjarðarins en er nú horfið.

Strandið varð aðfaranótt föstudagsins 2. október. Óveður hafði verið dagana á undan á Austfjörðum en talið var óhætt að Mávurinn, sem var í eigu Pólarskipa á Hvammstanga, legði af stað með tæplega 1000 tonn af saltfiski sem seld höfðu verið til Grikklands. Vont var þó í sjóinn og beið togarinn Brettingur frá Vopnafirði eftir Mávi úti á firðinum.

Samkvæmt lýsingum dagblaðanna var foráttubrim á firðinum. Um klukkan hálf fjögur urðu lætin slík að flutningaskipið kastaðist á sker á leiðinni út fjörðinn. Áhöfninni tókst að losa skipið en þegar ástandið var kannað kom í ljós að leki var kominn að Mávinum, mikið vatn var komið inn í tanka og lestar.

Eina leiðin til að bjarga því var talin að stefna því upp í sandinn inn í firðinum við Sandvík. Þar mun það hafa lent um kortér yfir fimm um morguninn. Í viðtölum við skipverja segja þeir að mikið átak hafi verið að sigla skipinu upp í fjöruna. Allir hafi þó verið samtaka og rólegir. Lætin hafi fyrst hafist þegar búið var að stranda því, brimið hafi lamið á því, brotið kýraugu og vart hafi verið stætt um borð.

Félagar í björgunarsveitinni Vopna voru snöggir á staðinn, skutu línu út í skipið og björguðu öllum þeim fimmtán sem um borð voru í land. Fyrsti einstaklingurinn kom í land klukkan sjö og um klukkutíma síðar hafði öllum verið bjargað.

Fyrstu dagana á eftir var kannað hvort hægt væri að bjarga skipinu eða farminum. Aðstæður voru þannig að ekkert var hægt að gera. Brimið skall áfram á Mávinum sem tók að liðast í sundur og grafast í sandinn. Einhver olía lak úr því og fiskurinn flaut upp í fjöruna, allt við litla hrifningu Vopnfirðinga.

Lengi mótaði fyrir skipsflakinu í fjörunni og mastrið stóð upp úr sandinum fram yfir þúsaldarmót. Svo fór þó að lokum að það grófst alveg í sandinn.

Mynd: Timarit.is/Dagblaðið


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar