Orkumálinn 2024

Flugmaðurinn sem sigldi yfir hafið

Þýski flugmaðurinn Stefan Guzinski var kominn inn á hótelherbergi sitt í Singapúr að loknu flugi þegar honum varð litið á farsímann sinn og sá að reynt hafði verið að hringja í hann úr íslensku númeri. Það reyndist vera lögreglan á Austurlandi. Ástæðan var ekki að Stefan hefði brotið af sér heldur hafði seglskútan hans, sem hann hafði yfirgefið á Seyðisfirði nokkrum dögum fyrr, brunnið. Stefan settist niður með Austurfrétt til að segja söguna af skútunni og siglingum sínum.

„Pabba er að vissu leyti létt yfir að ég sé ekki lengur á skútunni. Hann sagði alltaf að hún væri of lítil fyrir Norðursjó. Það voru kaflar á leiðinni sem enginn vildi koma með mér því þeir voru hræddir,“ segir Stefan.

Við sitjum á Egilsstöðum þar sem Stefan bíður eftir flugi. Hann sýpur kaffi úr könnu sem fyrir tilviljun er merkt íslenskum nafna hans. Hann er nýkominn frá Seyðisfirði þar sem hann skoðaði það sem eftir er af skútunni með eigin augum. Hún brann við Bæjarbryggjuna að kvöldi 29. maí, þremur dögum eftir að Stefan hafði farið af landi brott. Skútan var því mannlaus þegar eldurinn kom upp. Eldsupptök eru óstaðfest en helst er talið að kviknað hafi í út frá rafmagni. Starfsmenn Stálstjarna hafa skoðað ástand skútunnar, ólíklegt er að hún sigli nokkurn tíman aftur.

Stephima á Norðursjó

Skútan hefur verið í eigu fjölskyldu Stefans frá því faðir hans keypti hana árið 1986. Sænsk barnfóstra átti hugmyndina að nefna hana Stephima eftir Stefan og bræðrum hans, Philip og Matthias. Lengst af var Stephima staðsett á Bodensee eða Constance – vatninu á landamærum Þýskalands, Austurríkis og Sviss sem ber mismunandi heiti eftir löndum - en Stefan býr í bænum Lindau við vatnið. Hann segist hafa verið á skútum við Miðjarðarhafið en þótt dýrt að dvelja þar. Það hafi orðið til þess að hann fór að horfa til norðurs. „Ég er mikið á brimbrettum og hafði áhuga á norðlægari slóðum,“ útskýrir hann.

Hann lét vaða eftir að faðir hans gaf honum Stephimu. „Mig langaði að gera eitthvað við skútuna svo ég fór með hana til Hamborgar í apríl 2019.“
Þaðan hófst ferðalag hans. Fyrst stoppaði hann á þýsku eyjunum Sylte, sem eru við dönsku landamærin en þaðan fetaði Stefan sig áfram eftir vesturströnd Danmerkur. „Mér fannst gott að geta lagt bátnum og dregið síðan brimbrettið fram,“ segir hann.

Hann kveðst alltaf hafa haft það bakvið eyrað að möguleiki væri að fara þvert yfir Danmörku inn á Eystrasalt. Það hafi honum verið ráðlagt en hugur hans stefndi í norður. Við norðurenda Jótlands beið hann eftir hentugu veðri til að geta siglt yfir til Kristiansand í Noregi. Það gekk. Þaðan var farið til Stavanger þar sem Stephima fór í slipp, stýrisútbúnaður hennar efldur og jafnvægið sömuleiðis. Lokaáfanginn var síðan til Björgvin þar sem skútan var geymd yfir veturinn.

Velkominn í Færeyjum

„Stærsta áskorunin á siglingum mínum var að komast frá Noregi til Hjaltlandseyja. Það vildi enginn koma með mér, bróðir minn og vinur sögðu skútuna alltof litla,“ segir Stefan.
Stephima var 9,7 metrar á lengd og 3,2 metrar á breidd. Hún var með tveimur seglum en einnig 18 hestafla mótor til stuðnings. „Ég sigldi í október í fyrra. Þrjá fyrstu dagana sem ég ætlaði af stað var vindurinn of mikill, síðan lægði. Það sem ég áttaði mig ekki á var að þótt það hefði lægt voru öldurnar enn til staðar. Ég þurfti því að stýra 8 km með vélinni.“

Siglingin til Lerwick var allt annað en auðveld. „Ég var mjög sjóveikur á leiðinni og lá nánast fyrir. Ég rétt leit á staðsetningartækin til að vera viss um að ég væri á réttri leið,“

En hann komst alla leið og þaðan var stefnan tekin til Færeyja. „Eftir að hafa heyrt að ég komst alla leið ákvað vinur minn að slá til og sigla með mér til Færeyja. Út af Covid tók hann þrjá daga að komast til Hjaltlandseyja. Siglingin til Færeyja var síðan fín. Við hugsuðum ekkert út í Covid-takmarkanir fyrr en við komum að bryggju í Þórshöfn. Lögreglan hugsaði sig um smá stund en leyfði okkur að vera við bryggju því við værum ekki veikir fyrst við hefðum siglt yfir hafið. Við vorum síðan frjálsir eftir að hafa reynst neikvæðir í skimun.“

Stefan segist hafa haft það afar gott í Þórshöfn þar sem hann dvaldi til 30. desember. „Ég var með brimbrettið með mér og komst í jólaveislu. Við eignuðumst góða vini þar sem við höldum sambandi við.“

Grét af gleði við að sjá Norrænu

En hugurinn stefndi lengra og um miðjan maí sneri Stefan aftur til Færeyja, að þessu sinni til að sigla til Íslands. Skútan var hreinsuð og vélin yfirfarin áður en lagt var í hann. „Ég þurfti þrjár tilraunir. Ég var ekki vanur sjónum svo ég varð sjóveikur eftir fjóra tíma og snéri við. Öldurnar voru þriggja metra háar. Ég kom svekktur í land því ég hafði verið tíu tíma á sjónum. Síðan beið ég eftir betri spá. Ég skoðaði tvær spár, í annarri var logn en í hinni 12-15 hnútar sem duga. Ég lét vaða en var fjóra tíma í logni og komst ekkert áfram.“

Öðru sinni sneri Stefan sneyptur til hafnar. Hann var síðan boðaður til vinnu 1. júní þannig tíminn var að renna út. Þá kom loks byr og Stefan lét vaða. „Vindurinn fyrstu nóttina fór upp í 20 hnúta og skútan hallaðist tvisvar fyrstu nóttina. Maður er einn og heyrir önnur hljóð á opnu hafi en stöðuvatni, brak og bresti sem maður hefur ekki heyrt áður. Ég svaf varla dúr. Ég hafði ekki gervihnattasíma svo ég átti erfitt með að láta vita af mér. Ég mætti ekki svo mikið sem einu skipi, sá ekkert nema hafið. Svo eftir 56 tíma sá ég Ísland. Allt í einu sá ég sólina, snævi þakin íslensku fjöllin og svo kom Norræna á móti mér út úr firðinum. Ég grét af gleði við að sjá þetta allt.“

Elti draumana

Til Seyðisfjarðar kom hann 26. maí og dvaldi þar í þrjá daga en skildi Stephimu eftir til að fljúga til Singapúr. Á hótelinu þar sá hann að íslenska lögreglan hafði reynt að hafa samband. „Ég hringdi til baka og heyrði þá af eldinum. Ég skildi ekki fyrst hvernig þetta hefði getað gerst, hvort einhver hefði farið um borð en var fullvissaður um að enginn hefði sést á myndavélum. Nú er talið líklegast að kviknaði hafi í út frá rafmagni. Það er þó ekki staðfest, hver veit hvort það verði nokkurn tíma?“ segir hann.

Hann segir tjónið ekki bara snúast um eignir og fjármuni. „Ég var að elta drauma mína og eignaðist margar minningar um borð. Margir hafa deilt þessum draumi, ýmist með að sigla með mér eða hlusta á mig segja sögurnar. Fólk sem hefur verið með mér hafði samband við mig eftir brunann eins og einhver hefði dáið,“ útskýrir Stefan og bætir því við að hann hafi hugsað sér í sumar að halda áfram meðfram suðurströndinni með vinum sínum í sumar en stefna svo til Grænlands næsta sumar og þaðan jafnvel enn lengra til vesturs. „Þar sem ég hafði sannað að þetta væri hægt ætluðu tveir vinir mínir að vera með mér í sumar.“

Íslendingar yfirvegaðir

Stefan hefur velt fyrir sér hvað hægt sé að gera við Stephimu. Eftir að hafa skoðað flakið sé það niðurstaðan að hún verði vart nokkurn tíman sjóhæf á ný, viðgerð borgi sig varla. Í samtali við Austurgluggann velti hann því upp hvort hægt væri að gera úr henni minnismerki sem veitt gæti öðrum sæförum innblástur. Hann spáir því að Norðursjór muni fá meiri athygli á næstu misserum. „Veðrið getur verið erfitt þannig að maður þarf að hafa rúman tíma en á móti kemur að hafnirnar eru ódýrari og ekki jafn þéttsetnar og sunnar. Ég held það gildi það sama með skúturnar og húsbíla, mín kynslóð vill geta ferðast af frelsi.“

Stefan segist innilega þakklátur öllum þeim sem hafa aðstoðað hann hérlendis. „Mér finnst ánægjulegt hve tekið er á öllum vandamálum hérlendis. Heima í Þýskalandi væri ekki sama yfirvegunin, þar væri vísað í alls konar lög og flækjur.

Ég er þakklátur slökkviliðinu sem tók áhættu við að slökkva eldinn og öðrum sem komu að, til dæmis starfsmönnum skipasmíðastöðvarinnar sem hífðu bátinn í land. Ég er líka feginn að þetta gerðist í höfn en ekki úti á rúmsjó.“

3364A2B7 CA85 45BE BC25 84ED1597FD6B Web
399C32C3 E361 4636 B890 74B8E847A3BC Web
4F7EF90D 1FA5 4130 ADA9 00136851A775 Web
58024682 CA28 41AB 853B 17DE6B7B0402 Web
58024682 CA28 41AB 853B 17DE6B7B0402 Web
68FA7DF0 0B88 476F 8576 033FACC93B2C Web
7EA07678 8623 47D6 9752 14074C372F85 Web
94968F90 4E3C 41CC 8081 52E81BB543A6 Web
9B6B48E3 0FE2 4E31 B716 C997C52530ED Web
FA7B7D7E 85E6 4354 9C9D 1517C723ADDC Web
Stephima1 Snyrt
Stephima2 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.