Flugnám hjá Keili vinsælt hjá Austfirðingum
Þó nokkrir Austfirðingar hafa sótt í flugnám hjá Flugakademíu Keilis. Áhugasömum Austfirðingum bauðst í dag tækifæri á að fara í kynningarflug með Keilisfólki á Egilsstaðavelli.
„Þetta er strembið nám en ef þú hefur áhugann þá er þetta það skemmtilegasta sem þú getur lært,“ segir Íris Erla Thorarensen, þjálfunarstjóri hjá Flugakademíunni.
Fyrsta skrefið í átt að flugmannsréttindunum er einkaflugmannspróf en menn geta byrjað það nám sextán ára gamlir. Að því loknu geta menn spreytt sig á inntökuprófi í atvinnuflugmannsnámið.
Nokkrir Austfirðingar hafa farið í gegnum flugnámið hjá Keili. „Við erum með nokkra Austfirðinga sem eru byrjaðir í atvinnuflugnáminu eftir að hafa lokið einkaflugmannsprófi hjá okkur.“