Flugu austur með pizzaveislu

Æstur aðdáandi Dominos pizza á Egilsstöðum fékk ósk sína uppfyllta þegar fyrirtækið sendi úrval af uppáhalds flatbökunum hans austur. Hann á sér þó þá ósk að keðjan opni stað eystra.

„Mér finnst þetta góðar pizzur og fannst tækifæri fyrir meiri fjölbreytni í veitingaflórunni hér, eins og er að gerast,“ segir Oddur Logi Reynisson, Dominos aðdáandi.

Eftir ferð á Akureyri í desember sendi Oddur Logi hvatningu á fyrirtækið um að opna stað á Egilsstöðum. Skeytin urðu reyndar fleiri en eitt og loks kom í ljós árangur.

„Eftir að ég sendi póst í síðustu viku um fjölgun íbúa á svæðinu þá spurði markaðsstjórinn hvort hún ætti ekki að koma austur með pizzaveislu og ég sagði já við því.“

Anna Fríða Gísladóttir, markaðsstjóri Dominos, kom með hádegisfluginu á mánudag með sendingu til Odds og vina hans sem hittust á Aski Taproom.

„Ég hélt þetta ætti bara að vera lítið en svo vatt þetta upp á sig og varð alltof stórt fyrir íbúðina mína,“ segir Oddur.

Hann vonast til að þrýstingur hans hafi orðið til þess að koma Austurlandi á Dominos kortið. „Ég fékk þau skilaboð frá forstjóranum að Egilsstaðir væru komnir ofar á listann ef bætt yrði við stöðum á landsbyggðinni þótt þess sé ekki að vænta á næstunni. Þetta er keðja sem virðist ganga út um allt land nema hana vantar á Austurland.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar