Flytur heim á Vopnafjörð til að gera gott mót enn betra
Debóra Dögg Jóhannsdóttir er nýr framkvæmdastjóri hinnar þekktu hátíðar Vopnaskaks á Vopnafirði en verkefnið heillar hana svo mikið að hún ætlar sér beinlínis að flytja tímabundið aftur heim til að gera gott mót betra.
Vopnaskak er að margra mati ein skemmtilegasta bæjarhátíðin en það helgast að hluta til af því að ólíkt mörgum öðrum slíkum þá eru heimamenn ekki að flýja brott meðan á húllumhæinu stendur heldur taka þátt af þunga.
Debóra býr og starfar í Hafnarfirði og hefur gert um hríð en hún ætlar beinlínis í tímabundið leyfi til að fara heim í Vopnafjörðinn og gera glimrandi gott mót þar í sumar en hátíðin er dagsett þann 30. júní til 2. júlí þetta árið.
„Ég er með kollinn fullan af hugmyndum en að sama skapi langar mig að halda áfram þeirri vegferð sem hófst síðasta sumar þar sem fyrirtækin í bænum tóku miklu meiri þátt en áður og það fannst bæði mér og öðrum afskaplega skemmtilegt. Það er einmitt eitt af því sem mig langar að gera er að lengja hátíðina lítils háttar. Hafa hana ekki bara eina helgi heldur bjóða upp á hitt og þetta skemmtilegt vikuna á undan eða eitthvað slíkt.“
Debóra er „næstum“ innfæddur Vopnfirðingur eins og hún segir sjálf en þar bjó hún frá þriggja ára aldri áður en hún hélt suður fyrir fáeinum árum.
„Það er margt ágætt við að búa í bænum en það er alltaf söknuður til heimaslóða og mig hlakkar verulega til að taka þátt í þessu í sumar.“