Forsetagimbrin fékk nafnið Eliza

Heimsókn hr. Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, til Fjarðabyggðar lauk í gær þegar forsetinn leit við í sauðburði á bænum Sléttu í Reyðarfirði. Nýfædd gimbur var þar nefnd eftir forsetafrúnni.

„Við enduðum á að fylgjast með sauðburði á Sléttu. Ég hélt þar á nýbornu lambi og fékk að gefa því nafn. Þetta er lífvænleg gimbur sem heitir Eliza,“ sagði Guðni í samtali við Austurfrétt í lok ferðarinnar. Lambið heitir eftir forsetafrúnni, Elizu Reid, sem ekki var með í ferð að þessu sinni.

Starfsmenn Fjarðabyggðar og forsetaembættisins héldu utan um skipulag ferðarinnar austur. Eftir því sem næst verður komist mun heimsókn í sauðburð hafa verið það sem forsetinn bað sérstaklega um. Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bóndi og bæjarfulltrúi, hélt utan um móttökurnar á Sléttu.

„Heimsókn okkar var áður frestað vegna óviðráðanlegra orsaka. Fyrst það hittist þannig á að við vorum í miðjum sauðburði þá fannst mér tilvalið að fylgjast með. Þótt engin ær bæri meðan við vorum á Sléttu þá var mjög skemmtilegt að koma þangað. Okkur var afar vel tekið þar.“

Mynd: Jessica Auer


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar