Forskráning fyrir Austfirðinga á LungA

Austfirsk ungmenni hafa tækifæri til fimmtudags til að skrá sig á listasmiðjur LungA-hátíðarinnar sem haldin verður á Seyðisfirði í júlí. Skipuleggjendur segjast vilja ná betur til nærsamfélagsins að þessu sinni. Hægt er að skrá börn frá fjögurra ára aldri í listasmiðjur.

„Meiningin er að gæta að grunnhugmyndum hátíðarinnar, að skapa vettvang þar sem austfirskum ungmennum býðst tækifæri til að taka þátt í skapandi verkefnum, myndlist og listrænni tjáningu eins og nafnið: LungA – Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, ber með sér,“ segir Halldóra Kristín Lárusdóttir, samfélagsfulltrúi LungA.

Hátíðin verður haldin á Seyðisfirði í 24. sinn dagana 9. – 16. júlí í sumar. Í dag hófst forskráning í listasmiðjur fyrir austfirsk börn og ungmenni. Hún stendur til fimmtudags. Auk forskráningarinnar fá Austfirðingar afslátt á þátttökugjaldi og nemendur Menntaskólans á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands geta fengið tvær einingar.

Skráningin er opin börnum frá 4 ára aldri. Halldóra segir að til standi að gera sérstakar aldursflokkaskiptar smiðjur fyrir börn 4-16 ára en einstaklingum eldri en 16 ára geta skráð sig í almennar listasmiðjur á sama hátt.

Halldóra segir ýmsar ástæður fyrir að ákveðið sé að bjóða Austfirðingum sérkjör í ár. Til að mynda sé ekki sérstakt erlent samstarf í kringum hátíðina nú, sem síðustu ár hafi skilað um 60 þátttakendum í hvert sinn. Þar með skapist rými til sem skipuleggjendur hafi viljað bjóða nærsamfélaginu. „Okkur langar að LungA sé staður þar sem samfélagið á Austurlandi geti komið saman og kynnst framúrstefnu í myndlist og tónlist.“

Fylla þarf út sérstakt skráningarblað sem aðgengilegt er hér. Það er jafnframt könnun á áhugasviðum og hugmyndum væntanlegra þátttakenda um hvers konar smiðjum þá langi helst að taka þátt í. Svörin nýtast síðan til að móta vinnusmiðjurnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.