Forsætisráðherrar eins og ferðamenn á Fljótsdalshéraði

Image Norrænir forsætisráðherrarnir skemmtu sér í útsýnisferð um Fljótsdalshérað í dag. Í gær funduðu þeir á Egilsstöðum.

 

Dagurinn hófst á blaðamannafundi á Hótel Héraði. Í tilkynningu frá fundinum er lögð áhersla á samstarf Norðurlandanna í loftslagsmálum og að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir ræddu einnig Evrópumál, en Svíar taka við formennsku í Evrópuráðinu í byrjun júlí á sama tíma og Íslendingar vonast eftir að samþykkja að fara í aðildarviðræður. Þá var um helgina gengið frá lánakjörum á samnorrænu láni til ríkissjóðs Íslands.

ImageAð fundinum loknum var farið í útsýnisferð um Fljótsdalshérað. Fyrst var stoppað í Vallanesi þar sem lífræn framleiðsla hjá Eymundi Magnússyni bónda, undir merki Móður jaðar, var kynnt. Forsætisráðherrum og fylgdarliði var boðið upp á Morgunverð Gabríels, sem er settur saman úr byggi frá Eymundi, eplum og rjóma. Rétturinn heitir eftir syni Eymundar. Eftir heimsóknina í Vallanes hélt sænska sendinefndin af landi brott en aðrir héldu áfram inn í Hallormsstaðarskóg.

Image Í skóginum var trjásafnið skoðað og farið niður að fljóti. Forsætisráðherrarnir og makar slökuðu á, héldust í hendur og nýttu tækifærið til að mynda landslagið. Finnski forsætisráðherrann, Matti Vanhanen, dáðist sérstaklega að hæsta tré skógarins. Hann sagðist vanari því að sjá þriggja til fjögurra metra há tré á Íslandi og því væri þetta einstök sjón fyrir hann. Að skilnaði færði Jón Loftsson, skógræktarstjóri, ráðherrunum bækur um Hallormsstaðarskóg að gjöf. Hann sagði að þeir sem læsu eldri norsku ættu ekki að vera í vandræðum með að skilja þær, fyrir aðra væru þær góðar til að viðhalda íslenskukunnáttunni.

ImageÁ Skriðuklaustri var dalmatíuhús Gunnars Gunnarssonar skoðað, jafnt að innan sem utan og borðaður hádegismatur. Til stóð að skoða fornleifauppgröftinn, en á meðan kynningu dr. Steinunnar Kristjánsdóttur við uppgraftarsvæðið stóð brast á úrhellis rigning. Þangað til hafði veðrið leikið við ferðamennina. Því var ákveðið að flýta för og flúðu ráðherrarnir ásamt föruneyti upp í rútur. Ekið var út Fell og komið á Egilsstaðaflugvöll á áætluðum tíma klukkan þrjú. Þar biðu einkaþotur ráðherranna, fyrst hóf sú danska sig á loft, síðan sú norska en seinast fór sú finnska. Vanhanen hafði ýmsum hnöppum að hneppa á meðan ferðinni stóð, hann fékk send gögn í Skriðuklaustur og var í símanum þegar Austurglugginn yfirgaf flugvöllinn. Þá voru bæði norsku og dönsku ráðherrarnir farnir.

ImageSeinust allra frá Egilsstöðum fóru samt Jóhanna Sigurðardóttir og fylgdarlið hennar sem tóku áætlunarflug.

Áætlað er að hópurinn hafi talið um fimmtíu manns. Auk forsætisráðherranna og maka voru líf- og öryggisverðir með í för auk blaðamanna. Norskir blaðamenn voru sérlega fyrirferðamiklir en sjónvarpsstöðvarnar NRK og TV2 sendu til að mynda báðar tökumenn og fréttamenn og voru einar hinna erlendu sjónvarpsstöðva til að gera slíkt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.