![](/images/stories/news/2017/fortitude_nagra_web.jpg)
Fortitude-leikari heillaðist af Gistihúsinu
Parminder Nagra, sem fer með hlutverk í bresku spennuþáttunum Fortitude, segir besta matinn sem hún hafi fengið á síðasta ári hafa verið borinn fram á Gistihúsinu á Egilsstöðum. Nagra dvaldi hér meðan þættirnir voru teknir upp í vor.
Þetta kemur fram í viðtali við Nagra í breska blaðinu The Guardian þar sem hún telur upp sex hluti sem standa upp úr að hennar mati frá árinu 2016. Þar velur hinn sitt uppáhalds leikrit, tónleika, skáldsögu og veitingastað – sem er Gistihúsið.
„Ég var á Íslandi í hálfan mánuð í apríl til að taka upp aðra þáttaröð Fortitude. Við dvöldum í þorpi sem kallast Egilsstaðir, sem er býsna afskekkt. Þangað fer ekki nokkur nema hann sé á hringferð um landið en ef menn gera það verða þeir að stoppa á Gistihúsinu.
Maturinn er svo góður og allt er hreint og ferskt á bragðið. Við fengum þetta ótrúlega lamb sem var ekki með villibragðarkeim, eins og lambakjöt er oft og silungsrétt sem er sá allra besti sem ég hef nokkurn tíman smakkað.
Og þetta sítrónusmjör sem þarna var – það var eins og eftirréttur! Við fórum þangað nokkur kvöld í röð, gengum frá hótelinu í gegnum djúpan snjó og allt sem við smökkuðum var stórkostlegt.
Nagra á að baki nokkur þekkt hlutverk eins og Dr. Neela Rasgotra í sex þáttaröðum af Bráðavaktinni en henni hefur einnig brugðið fyrir í Alcatraz, The Blacklist og Bend it like Beckham.
Fyrsti þátturinn í nýju seríunni verður sýndur á RÚV í kvöld.