Forvarnarmálþing í VA í dag
Árlegt forvarnarmálþing Verkmenntaskóla Austurlands fer fram í dag. Yfirskrift þingsins í ár er: „Líður fólki vel í kringum mig.“ Unnið er að forvörnum gegn ofbeldi.Fyrirlesarar eru Þorsteinn V. Einarsson frá Karlmennskunni og Benedikta Sörensen frá Ofbeldisvarnaskólanum auk þess sem fulltrúi lögreglunnar segir frá nýstofnuðu samráðsverkefni sem heitir Öruggara Austurland.
Þau verða með opinn fyrirlestur fyrir almenning í Egilsbúð í Neskaupstað frá 19:30-21:30 í kvöld. Í dag verða þau með fræðslu fyrir nemendur í VA og 10. Bekkjum grunnskólanna í Fjarðabyggð.
Þorsteinn er kynjafræðingur sem fjallar um jákvæða karlmennsku og jafnrétti. Í erindi hans ræðir hann muninn á skaðlegri og jákvæðri karlmennsku, hvernig kurteisi og vanar geta viðhaldið misrétti í gegnum hversdagsleg samskipti. Benedikta segir frá forvarnaleiðum með áherslu á mismunandi tegundir ofbeldis og rætur þess.
Forvarnateymi VA hefur, í samstarfi við fleiri aðila, staðið fyrir árlegum málþingum sem hafa verið vel sótt. Meira en 10 ár eru liðin síða fyrsta málþingið var haldið. Markmið þeirra er að stuðla að bættu samfélagi og lífgæðum.