Forvarnaskólinn útskrifar nemendur á Egilsstöðum

Forvarnaskólinn hóf þá nýbreytni í ár að bjóða upp á nám utan höfuðborgarsvæðisins. Fyrsti staðurinn til þess að fá skólann til sín var Egilsstaðir, en nemendur komu víðar af á Austurlandi. Skólinn hófst í lok janúar en útskrift fór fram 24. maí sl. í fundarsal bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði.

forvarnarsklinn.jpg

Í tilkynningu frá Forvarnarskólanum segir að sex nemendur hafi verið útskrifaðir. Fjórir þeirra hafa bein tengsl við sveitarfélagið Fljótsdalshérað, annars vegar starfsmenn frá félagsþjónustu,  fræðslusviði og félagsmiðstöðvunum auk þess sem fulltrúi í fræðslunefnd var í hópnum. Mikil ánægja var meðal nemenda sem útskrifuðust með það að fá tækifæri til að stunda nám í skólanum á heimavelli. Kennt var í lotum, þ.e. fimmtudag, föstudag og laugardag í hverri lotu. Kennd var ein lota í mánuði. Hver lota tók 20 klukkustundir nema fyrsta lota sem stóð föstudag og laugardag, samtals 12 klukkustundir. Samtals var því um að ræða fimm lotur auk tíma til próftöku og útskriftar í lokin.

 

Þeir sem tóku þátt í starfi Forvarnarskólans og hafa bein tengsl við Fljótsdalshérað notuðu þetta tækifæri til að vinna markvisst undir handleiðslu Árna Einarssonar, skólastjóra Forvarnarskólans, að mótun forvarnarstefnu sveitarfélagsins og einstaklingsbundin lokaverkefni hvers og eins voru skipulögð þannig, að þau eru í meginatriðum framsetning markmiða með skilgreindri aðgerðaáætlun í völdum þáttum forvarnarstefnu sveitarfélagsins. Þannig fjallaði eitt verkefnið um vímuvarnarþáttinn, annað um einelti, þriðja um lýðheilsumál o.s.frv.  Með þessum hætti fékkst tækifæri til að tryggja vandaða og faglega vinnu við gerð forvarnaráætlunar. Með þeim hætti sem hér hefur verið farin verður aukin fagmennska og þekking eftir í því samfélagi þar sem vinnan er unnin, en hverfur ekki á braut með góðum ráðgjafa þegar verkefni er lokið.

Mynd/Fljótsdalshérað

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.