Frá Kárahnjúkum í Karabíska hafið

Annar Marín Þórarinsdóttir tók síðsumars við starfi fræðslustjóra Fjarðabyggðar af Þóroddi Seljan, sem gegnt hefur starfinu árum saman. Anna Marin er uppalinn Fáskrúðsfirðingur en hefur komið víða við á lífsleiðinni.

Að loknu grunnskólanámi fór hún í Eiða og var í síðasta bekknum sem hóf þar nám. Hún lauk síðan framhaldsskólanámi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum sem hafði yfirtekið starfsemi Alþýðuskólans.

Hún tók sér síðan frí frá námi, vann í eldhúsi á Kárahnjúk áður en hún varð aðstoðarmaður upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar í Fljótsdal. Hún segist þar hafa farið að finna fyrir frekari ævintýraþrá og ráðið sig sem þernu á lúxussnekkju í karabíska hafinu.

„Þar var ég í sex, sjö mánuði alls og var vægast sagt ótrúleg breyting frá lífinu á Austurlandi. Þetta var æði sérstakt fyrir svona manneskju af fámennu svæði í fámennu köldu landi. Þarna vorum við nokkur ráðin til að sjá um eiganda þessarar snekkju sem var auðvitað milljarðamæringur.

Ég var eiginlega alfarið í að sinna öllum hans þörfum sem svokölluð fyrsta þerna um borð þegar hann var á bátnum sem reyndar var ekkert mjög oft á þessum mánuðum sem ég starfaði þarna. Hann átti eignir á Bahamas og víðar og var nú eiginlega meira þar en á snekkjunni sjálfri.“

Snekkjulífið breytti sín Önnu á lífið og tilveruna en hún minnist þess sérstaklega hversu hrædd hún var við að fljúga til og frá en til þess þurfti þrjár mismunandi flugferðir. „Þetta er þarna þremur árum eftir hryðjuverkaárásirnar í New York og manni brá heil ósköp yfir öllum þeim varúðarráðstöfunum sem voru á flugvöllunum á þessum tíma. Þá kom iðulega fyrir að ég væri tekin afsíðis á öllum flugvöllum út af eftirnafninu mínu, enda ekkert Þ í vegabréfskerfum erlendis sem skapaði töluvert vesen fyrir mig.“

Börnin vildu flytja austur


Anna Marín er gift Róberti Óskari Sigurvaldasyni. Þau eiga saman tvö syni auk þess sem hún á tvö stjúpbörn. Anna Marín segir börnin hafa viljað fara austur og þau látið af því verða þótt það hafi kostað fjarbúð meðan Róbert var enn í vinnu í Reykjavík.

„Börnin voru ekkert sátt í Reykjavík og vildu bara hingað austur og auðvitað verður fólk að taka tillit til slíks. Enda erum við að byggja hér á Fáskrúðsfirði sem segir kannski allt sem segja þarf.“

Fjögur ár eru síðan Anna Marín kom austur aftur. Hún varð fyrst aðstoðarskólastjóri á Fáskrúðsfirði, síðan skólastjóri Nesskóla og loks fræðslustjóri. Hún var byrjuð í doktorsnámi og hefur kennt við Háskólann á Bifröst í sjö ár.

Breytingarnar verða hægt og bítandi


Hún segir það nokkra áskorun að takast nú á við starf fræðslustjórans. „Ég veit mætavel að þetta er stórir skór enda varla hægt að finna vanari mann en Þórodd sem gjörþekkir allt er fræðslumálum viðkemur á svæðinu. Það er reyndar stór kostur því hann hefur gert mjög góða og spennandi hluti og allt á skrifstofunni í föstum skorðum sem ég geng beint að.

Annars er ég ekki þannig manneskja sem vill snúa öllu á hvolf eða finna upp hjólið í öllum málum. Það er búið að því annars staðar og með góðri samvinnu og samstarfi má nýta allt gott annars staðar frá án þess að hrista upp í öllu kerfinu.

Að því sögðu þá er ég auðvitað með nokkrar hugmyndir í kollinum sem mig langar að koma í framkvæmd en það geri ég bara hægt og bítandi. Mér finnst heillandi að ná samhæfingu í skólastarfinu, lyfta öllum steinum upp og grandskoða hvort og þá hvað má gera betur. Ég hef náttúrulega verið fjögur ár í stjórnendastarfi hér og veit að fólkið í fræðslustörfum hér í Fjarðabyggð er afar gott og fórnfúst fólk sem gerir verkefnið enn skemmtilegra. Mér finnst reyndar ótrúlega hæft starfsfólk hér í kennslustörfum sem er frábær grunnur fyrir að gera gott starf betra.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.