Frá klifri í trjám til doktorsritgerðar um birkiskóga

Guðrún Óskarsdóttir, gróðurvistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, varði síðasta doktorsritgerð sína. Umfjöllunarefni ritgerðarinnar er vistfræði og nýliðun birkistofnsins á Skeiðarársandi og hún byggir á þremur greinum sem fjalla um: þróunarmynstur fyrstu kynslóðar stofnsins í tíma og rúmi, fræframleiðslu- og gæði og tilkomu annarrar kynslóðar birkis á sandinum.

Guðrún hóf störf hjá Náttúrustofu Austurlands árið 2015 rétt eftir að hún lauk meistaragráðu sinni, en áhugi hennar á birkiskógum var lengi í mótun.

„Ég klifraði mikið í trjám sem krakki og var í sveit þar sem var m.a. stunduð skógrækt. Ég hafði því mikið dálæti á trjám og á ferðalögum um landið með fjölskyldunni stóðu staðir eins og Þórsmörk og Ásbyrgi upp úr. Mig langaði til að vinna við að græða upp landið og þegar ég byrjaði í BS náminu trúði ég því varla að nám gæti verið svona skemmtilegt.“

Meistaranámið mitt var síðan sveigjanlegt með mikið af valáföngum, svo ég valdi mest allt plöntumiðað, þar sem áhugasviðið lá, og fór að laðast meira að rannsóknum,“ segir hún. Áhuginn á birkiskógum mótaðist þar enn frekar, og Guðrún segist hafa haft sérstakan áhuga á birkinu á Skeiðarársandi, þó hún hafi ekki alltaf haft í huga að fara í doktorsnám.

Mismunandi þróun á sandinum


Leiðbeinendur Guðrúnar, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Kristín Svavarsdóttir, hafa fylgst með framvindu gróðurs á svæðinu allt frá 1998, þegar fyrstu landnemar birkis voru pínulitlar plöntur. Rannsóknir Guðrúnar miðuðu að því að skoða stofnvistfræði birkisins og fræframleiðslu, auk þess að meta lifun nýrra birkiplantna.

„Stofninn er í vexti, sem kom ekki á óvart, en það sem kom óvart var mismunandi þróun stofnsins á milli svæða innan Skeiðarársands,“ útskýrir Guðrún. Hún tekur fram að aðstæður virðast vera svipaðar á þessum 35 ferkílómetrum sem birkið nær nú yfir, en samt var þróunin ekki einsleit sem bendir til þess að þörf sé á frekari rannsóknum á svæðinu.

Fræið skoppað eftir frosinni jörðu í haustvindi


Birkið á Skeiðarársandi hefur breiðst út án beinna mannlegra inngripa, og hafa fræin líklegast borist með vindi heila 10 kílómetra frá fræuppsprettu sem er mjög löng vegalengd fyrir vindborin fræ.

„Það hafa fyndnar sögur gengið um að einhver hafi í skjóli nætur sáð fræjum en þetta er á þeim stærðarskala að það hefði þurft bílfarm af fræi. Erfðafræðirannsóknir rekja birkið til Bæjarstaðaskógar og það er talsverð ganga þangað svo það er óraunhæft að einhver hafi safnað þessu magni af fræi þar og sáð á sandinn án þess að nokkur hafi tekið eftir því, en skemmtileg tilgáta engu að síður,“ segir Guðrún.

Það sem rannsóknirnar sýna að hafi líklegast gerst er að það hafi verið til staðar aðstæður svo sem frost á jörðu og hressilegur haustvindur sem hafi gert það að verkum að fræin hafi hoppað og skoppað eftir jörðinni og komist yfir lengri vegalengdir en ella.

Dýrmætar upplýsingar um endurheimt náttúru


Þessi náttúrulega útbreiðsla birkis á Skeiðarársandi hefur veitt dýrmæta innsýn í það hvernig við getum nýtt náttúruna til endurheimtar birkiskóga annars staðar á landinu. „Tilkoma birkistofnsins á Skeiðarársandi sýnir okkur hvers náttúran er megnug. Ef við rýnum í það nákvæmlega hvernig þetta gerðist og hvaða þættir voru áhrifavaldar, getum við nýtt þessa þekkingu við endurheimt birkiskóga víðar á landinu,“ segir Guðrún.

„Það hafa farið blóð sviti og tár í landgræðslu víða um landið og svo kemur bara einhver vindhvellur sem kemur á stofn nýjum birkistofni út á miðjum Skeiðarársandi án þess að við höfum eytt í það nokkurri einustu krónu.“

Þrátt fyrir að doktorsverkefninu sé lokið, er Guðrún langt frá því að vera komin með nóg af birki. „Mig langar að kafa betur ofan í fræframleiðslu þess á Íslandi,“ segir hún. Hún hefur áhuga á að stofna staðlaða vöktun á fræframleiðslu birkis í hverjum landshluta og vonast til að þær upplýsingar geti nýst í framtíðinni, bæði til vísinda og endurheimtar.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar