Frábært að geta stokkið á milli landana og rannsókna
Una Sigríður Jónsdóttir hefur unnið hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði frá fermingu. Hún byrjaði í frystihúsinu en er nú eina konan í fiskimjölsverksmiðjunni. Hún sinnir þar fyrst og fremst gæðaeftirliti þótt hún grípi í fleiri verk.„Ég kom hingað 2018, fannst þá vera komið gott eftir 23 ár í frystihúsinu. Ég tók við hér á rannsóknarstofunni af Guðrúnu Níelsdóttur. Síðan var Alberta Guðjónsdóttir hér lengi sem löndunarstjóri. Mest allt árið er ég eina stelpan hér, á þær eru ein og ein sem koma til að aðstoða okkur á makríl- og loðnuvertíðunum,“ segir Una.
Foreldrar Unu unnu hjá Loðnuvinnslunni, faðir hennar Jón Bernharð Kárason var sjómaður á gamla Hoffelli og móðir hennar, Þórunn Linda Beck, vann í frystihúsinu. Það lá því beinast við þegar Una byrjaði að vinna 14 ára gömul að hún gerði það hjá Loðnuvinnslunni. „Ég hlakkaði til að fara að vinna. Það var gaman að geta unnið sér inn pening og þetta var fjör, til dæmis að vera með fólkinu á kaffistofunni.“
Þetta hefur þó breyst því með hertum reglum vinnur fólk undir 18 ára aldri ekki lengur þar. „Þarna unnu kynslóðirnar saman, krakkar voru með ömmu sínum. Ég man að þegar við söfnuðum fyrir ferðalaginu í 9. bekk þá vorum við fengin til að pakka síld. Það var fyndið, maður hékk einhvern vegin á plasttunnunum við að raða í þær. Þarna vorum við með foreldrum okkar, öfum og ömmum og var mjög gaman.
Mér finnst miður að krakkarnir í dag geti ekki byrjað að vinna fyrr en 15 ára, þau hefðu mörg gott af því að koma eftir tíunda bekkinn til að vinna í fiski og vinna sér inn pening fyrir menntaskólann. Áður fylltist hér allt af krökkum á sumrin þegar makríllinn kom og þá var mikil stemming,“ segir hún.
Norðmönnunum fannst sérstakt að sjá stelpuna koma til að landa
Una Sigríður hafði unnið í gæðaeftirlitinu í frystihúsinu áður en hún færði sig yfir. Hún hafði líka komið eins og fleira starfsfólks í bræðsluna þegar aðstoð vantaði í flokkanir. „Það var kallað eftir fólki úr frystihúsinu þegar vantaði þannig að ég vissi hvað ég væri að koma í.“
Fiskimjölsverksmiðjurnar, eða bræðslurnar, eru almennt karlavinnustaðir og Una segist ekki vita af mörgum öðrum konum sem vinna í þeim. „Það getur alveg verið áskorun að vera eina stelpan, en ég fell inn í hópinn. Þeir geta sagt það sem þeir vilja, ég móðgast ekki heldur ríf kjaft á móti.“
Þótt hún sé mest á rannsóknastofunni þá gengur hún einnig í önnur verk svo sem að landa. „Ég var alveg smá stressuð fyrir fyrstu lönduninni minni. Þú þarft að draga slöngu upp úr lest og til þess þarf mikið afl. Það er samt fullt af stelpum sem ráða vel við það. Annað mál er síðan hvort þær kæra sig um það, þetta er skítastarf og lyktin loðir lengir við mann.
Þegar ég var nýkomin hingað vildu strákarnir að ég prófaði að landa upp úr loðnuskipum. Sjómennirnir í norsku skipunum áttu ekki orð þegar þeir sáu mig, litla og ljóshærða koma labbandi. Þeir héldu að ég réði ekki við slönguna og ætluðu að taka hana af mér. Ég get skilið þá því ég er ekki þannig vaxin að ég sé líkleg til að fara ofan í lest til að landa. Færeyingunum fannst gaman að fá mig, buðu mér að borða og drekka. Þar eru víst oft stelpur að landa.
Síðan prófaði ég að landa kolmunna. Slangan þar er þyngri. Ég hélt um hana en vissi að strákarnir ætluðu að hrekkja mig. Þeir skrúfuðu frá og ég rann eftir lestinni. Þeir ætluðu að láta mig detta en einn stóð fyrir aftan mig tilbúinn að grípa mig.
Mér finnst frábært að geta stokkið svona á milli rannsóknarstofunnar og landana, að vera ekki föst í einhverju einu. Við erum enda öll saman í þessu að hjálpast að.“
Fjölskyldustemming í bræðslunni
Það er líka stundum fjölskyldustemming í bræðslunni. Maður hennar, Hallgrímur Ingi Ólafsson, er fastráðinn þar og synir þeirra, Ólafur og Rúrik, hafa verið þar á stundum sem og faðir hennar. „Það er stemming þegar við erum öll hérna.“
Nóg hefur verið að gera í verksmiðjunni í ár. Hún fór í gang 2. janúar til að vinna loðnu og gekk síðan nánast sleitulaust allan sólarhringinn fram í byrjun júlí þegar kolmunnaveiðum var hætt. Þá höfðu 70.000 tonn farið í gegn, sem er met. Nú er makrílvertíð nýhafin hjá Loðnuvinnslunni.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.