Framkvæmdastjóri SÚN fagnar 40 ára söngafmæli
Árið 1983 tóku sig saman nokkrir ungir drengir og stofnuðu það sem átti eftir að verða ein þekktasta hljómsveit Norðfjarðar, Súellen. Einn af stofnendum sveitarinnar er Guðmundur Rafnkell Gíslason, hann þekkja margir sem Guðmund R eða Gumma Gísla frá Norðfirði, sem dagsdaglega starfar sem framkvæmdastjóri SÚN. Hann fagnar áfanganum með tónleikaferð í vikunni.
Guðmundur var aðeins 13 ára gamall þegar Súellen hóf sína vegferð en síðan eru liðin 40 ár. Þessum áfanga og stórafmæli verður fagnað í vikunni með því sem Guðmundur lýsir sem „lítilli tónlikaferð“ eins og hann kýs sjálfur að kalla þetta.
Guðmundur kemur fram ásamt hljómsveit sem í eru Jón Hilmar Kárason á gítar, Jón Knútur Ásmundsson á trommur og Þorlákur Ægir Ágústsson á bassa. Til stendur að flytja bæði þekkustu lög Súellen ásamt sólóefni Guðmundar.
„Það má segja að þetta séu einskonar yfirgripstónleikar þar sem ég segi skemmtilegar sögur á milli laga - bransasögur en líka bara frá lögunum og textunum“ segir Guðmundur.
Tónleikagestir mega því eiga von á því sem mætti kalla „innilegum rokktónleikum“. Guðmundur og félagar segjast fullir eftirvæntingar og spenningurinn sé að verða áþreifanlegur. „Það verður alveg rokkað. Við erum alveg með rafmagnsgítar, trommusett og allan pakkan“ segir hann en leggur áherslu á nándina sem mun líka vera til staðar í einlægum frásögnum milli laga.
Fyrstu tónleikarnir verða í Mjóafjarðarkirkju á miðvikudagskvöld, síðan Djúpavogskirkju á fimmtudagskvöld, Tehúsinu á Egilsstöðum á föstudagskvöld og loks KHB Brugghúsi á Borgarfirði á laugardagskvöld.