Framkvæmdum hraðað við ofanflóðavarnir

Í kjölfar tillögu Kolbrúnar Halldórsdóttur umhverfisráðherra sem samþykkt var í ríkisstjórn um að framkvæmdum við ofanflóðavarnir verði hraðað, hefur ofanflóðanefnd óskað eftir heimild fjármálaráðuneytisins til að bjóða út framkvæmdir við varnargarða í Neskaupstað og í Ólafsfirði. Umhverfisráðherra lagði til við ríkisstjórn að tæpum 1.100 milljónum króna yrði varið í ofanflóðavarnir til viðbótar við þær tæpar 700 milljónir sem ákveðið var að veita í málaflokkinn samkvæmt fjárlögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.

img_2050vefur.jpg

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir standi yfir næstu fjögur árin í Neskaupstað en ljúki að mestu á þessu ári í Ólafsfirði. Ætla má að framkvæmdirnar í Neskaupstað og Ólafsfirði muni skapa hátt í 200 ársverk.

Nú er unnið að útboði vegna upptakastoðvirkja í Neskaupstað. Tilboði í hönnun og smíði þeirra hefur þegar verið tekið en uppsetning verður boðin út á næstunni.

Íbúafundir voru haldnir í Ólafsfirði og í Neskaupstað í liðinni viku þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir voru kynntar af Hafsteini Pálssyni, verkefnastjóra ofanflóðanefndar og hönnuðum framkvæmdanna. Þar gafst íbúum sveitarfélaganna einnig kostur á að fá svör við spurningum um fyrirhugaðar framkvæmdir.

Fram kom á fundinum í Neskaupstað að framkvæmdir hefjist í vor með útboði á flutningi stofnlagnar vatnsveitu Fjarðabyggðar. Á vordögum er einnig gert ráð fyrir að útboði á uppsetningu stoðvirkja, en í lok mars var tilboði í smíði stoðvirkja tekið. Einnig er gert ráð fyrir að útboð vegna garðsframkvæmda verði sett á stað í lok apríl, þannig að framkvæmdir við hann geti hafist um miðjan júlí. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði að mestu lokið í lok árs 2012, þó mun frágangsvinna og yfirborðsfrágangur á görðum standa yfir árin 2013 og 2014.
 

Ofanflóðanefnd hefur með samþykkt ríkisstjórnarinnar jafnframt fengið heimild til að vinna að auknum framkvæmdum í Bolungarvík á árinu og til að hefja framkvæmdir við næsta áfanga snjóflóðavarna á Ísafirði. Áætlað er að 30 ný ársverk skapist í tengslum við þessar auknu framkvæmdir.

Þess má geta að nú er unnið að framkvæmdum við ofanflóðavarnir í Ólafsvík og Bíldudal auk fyrrgreindra framkvæmda í Bolungarvík. Miðað er við að ljúka framkvæmdum í Ólafsvík og Bíldudal að mestu leyti á árinu.

Meðfylgjandi er mynd frá íbúafundi í Neskaupstað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar