Framleiðir snyrtivörur, sápur, baðsölt og smyrsl á Fáskrúðsfirði

Sabina Helvida á Fáskrúðsfirði framleiðir ýmsar snyrtivörur sem finna má orðið í ýmsum verslunum á Austurlandi. Hún byrjaði á framleiðslunni eftir að hún og dóttir hennar veiktust fyrir rúmum áratug.

Árið 2011 greindist dóttir Sabinu með krabbamein. Á svipuðum tíma fann hún sjálf ofnæmi myndast fyrir iðnaðarefnasamböndum, því sem í daglegu tali eru nefnd kemísk efni.

„Ég vann lengi sem hárgreiðslukona á hárgreiðslustofu sem hefur líklega valdið ofnæminu ásamt stressi á meðan dóttir mín sótti krabbameinsmeðferð.“

Hún ákvað því að fjarlægja efnasamböndin og byrjaði að framleiða fyrir sig og fjölskylduna. Í dag framleiðir hún sápur, snyrtivörur, nuddolíur, baðsölt, varasalva og fleira. „Ég féll alveg fyrir þessari list. Ég hef alltaf haft góða kunnáttu á allskonar jurtum og nýtti mér það.“

Sabina er fædd í Bosníu og Hersegóvínu en fluttist árið 2003 til Íslands. Hún notar efni frá báðum löndum í framleiðslunni. „Í heimalandinu rækta ég morgunfrú, lavender, rósir, kamillu og fleiri jurtir sem ég get ekki ræktað á Íslandi. Fjölskyldan mín úti er með býflugur, þar fæ ég hreint bývax sem ég nota t.d. í smyrsl. Á Íslandi týni ég margskonar jurtir, ber og grös.“ Hún segir grunninn að öllum sínum vörum vera jurtir og jurtaolíur ásamt shea-smjöri, kakóssmjöri og annarskonar góðum grunnolíum.

Sabina er metnaðarfull í framleiðslu sinni og vill gjarnan halda áfram að þróa vörur. „Markmiðið er að vinna við það sem ég elska en einnig að færa fólki náttúrulegar vörur sem nota má án þess að hafa áhyggjur af innihaldi þess.“

Auk þess að framleiða snyrtivörurnar prjónar Sabina mikið og heklar. Hún útbýr til dæmis litla poka undir sápurnar auk þess sem hún selur stundum föt. „Um tíma var ég einstæð móðir og átti erfitt fjárhagslega. Mig langaði alltaf í íslenska lopapeysu en hafði ekki efni á, svo mér datt í hug að læra að prjóna.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar