Frábær bók til að kenna börnum um sína einkastaði

Blátt áfram, félagasamtök um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum, hafa gefið út barnabókina ,,Þetta eru mínir einkastaðir“ í samvinnu við Hagkaup. Sérfræðingar áætla að ein af hverjum fjórum stúlkum og einn af hverjum sex drengjum séu misnotuð kynferðislega áður en þau halda upp á 18 ára afmælið sitt. Þetta þýðir að í öllum kennslustofum og hverfum eru börn sem þjást í hljóði vegna kynferðislegrar misnotkunar. Tilgangur samtakanna Blátt áfram er að efla forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum á Íslandi.

etta_eru_mnir_einkastair.jpg

 

Forsvarsmenn Blátt áfram segja bókina ætlaða foreldrum, forráðamönnum og öðrum þeim sem koma að uppeldi barnanna. 

,,Í starfi okkar hjá Blátt áfram höfum við orðið vör við mikla vitundarvakningu meðal foreldra og uppalenda sem leita til okkar og biðja um ráð til að leiða börn í sannleikann um hættur sem að þeim steðja. Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hefur verið feimnismál í okkar samfélagi of lengi og við teljum mikilvægt að börnum sé  kennt hvað líkamshlutar þeirra heita og að ekki sé í lagi að snerta þau, þar sem þau vilja ekki láta snerta sig. Þetta eru mínir einkastaðir er frábært verkfæri sem hægt er að nota til að fræða börnin okkar. Auk þess hvetur bókin börn til að vera óhrædd við að segja frá að misnotkun hafi hún átt sér stað. Bókin er auðveld aflestrar, texti er í vísnaformi og myndskreytingar allar í höndum barna.Við vonumst til að bókin Þetta eru mínir einkastaðir efli umræðuna í þjóðfélaginu og hvetji foreldra og aðra uppalendur til að ræða við börn sín, feimnislaust, um það alvarlega samfélagsmein sem kynferðisleg misnotkun er. Rjúfum þögnina og munum ábyrgð okkar í uppfræðslu barna okkar. Óupplýst barn er varnarlaust barn.“ 

Hagkaup gefa öllum leikskólum í landinu eintak af bókinni Þetta eru mínir einkastaðir. Þá hafa ýmis sveitarfélög í landinu gefið leikskólabörnum sínu svæði bókina. 

Höfundur bókarinnar er Diane Hansen og þýðing í höndum Inger Önnu Aikman. Bókin kom fyrst út árið 2007. 

www.blattafram.is

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar