Fréttaritaraþjálfun ungs fólks
UNICEF á Íslandi hefur hleypt af stokkunum verkefninu Fréttaritaraþjálfun unga fólksins í samstarfi við RÚV og Morgunblaðið. Um er að ræða þjálfun ungra ‚fréttaritara‘ á aldrinum 13-16 ára (öllum opið í 8., 9. og 10. bekk) um allt land þar sem ungmenni fá þjálfun í að koma hugmyndum og skoðunum sínum á framfæri í fjölmiðlum. Þjálfunin hefur þegar farið fram á Ísafirði og í Reykjavík. Næst verður farið til Egilsstaða dagana 16.-18. apríl.
Ungmennin munu vinna efni fyrir RÚV og Morgunblaðið á meðan á þjálfuninni stendur sem verður birt eða útvarpað eftir hverja þjálfun. Allar upplýsingar um verkefnið má finna á : http://www.unicef.is/frettaritari.
Vonast er til þess að verkefnið verði valdefling fyrir ungmenni og hvetji þau til að koma skoðunum sínum á framfæri. „Við teljum Fréttaritaraþjálfun unga fólksins í raun nauðsynlega í þeim samfélagsbreytingum sem nú eiga sér stað í íslensku þjóðfélagi. Þessar breytingar snerta mjög framtíð íslenskra ungmenna. Það er von okkar að eftir fréttaritaraþjálfunina verði tugir íslenskra ungmenna um land allt reiðubúin að láta í sér heyra og geti orðið virkir ‘fréttaritarar’ ungmenna á Íslandi,“ sagði Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF Ísland. „Við vonumst til að með þjálfuninni og þeim verkefnum sem á eftir koma skapist tækifæri til að hleypa hugmyndum ungmenna meira inn í umræðuna.“
Framkvæmd Fréttaritaraþjálfunar unga fólksins er í höndum UNICEF og fjölmiðla. Hver þjálfun stendur í þrjá daga og mun að hluta til fara fram á svæðisstöð RÚV á hverjum stað. Skráning í þjálfunina á Egilsstöðum stendur yfir til 15. apríl. Miðað er við að halda þjálfunina á fimmtudegi og föstudegi, kl. 17-20, og á laugardegi kl. 11-17.
Verkefninu var ýtt úr vör á Heimsdegi barna í fjölmiðlum (International Children’s Day of Broadcasting), 1. mars. Efnt er til verkefnisins í tilefni af 20 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í ár en í honum segir m.a. að aðildarríki skuli tryggja rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og að taka skuli tillit til skoðana barna.