Fyrirlestrar um staðbundið veðurfar
Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson heimsækir Austurland á vegum Austurbrúar um næstur helgi og ræðir um staðbundið veðurfari í fjórðungnum. Hann hefur heimsótt bæi og þorp víða um land og rætt við heimamenn um hinar stóru breytur sem áhrif hafa á staðbundið veðurfar.
Fyrri fyrirlesturinn verður haldinn á Vonarlandi á Egilsstöðum milli klukkan 19:30 og 22:00 á föstudagskvöld. Þar verður farið í einkenni veðurlags á Austurlandi og einkum á Héraði. Rakið hver áhrif fjalla og dala eru á hita, vind, úrkomu og snjóalög. Skoðað hversu mikil áhrif sjórinn og sjávarhitinn hefur á veðurfar og hvaða afleiðingar hlýnandi veður hefur á Austurlandi. Einnig verður fjallað um hvaða gagn má hafa af veðurspám og hvernig þekking fólks á staðbundnu veðri getur aukið gagnsemi þeirra.
Seinni fyrirlesturinn verður í Safnahúsinu í Neskaupstað frá klukkan 13:00-15:30 á laugardag. Efnistök verða svipuð en sjónum beint að fjörðunum og þá einkum Norðfirði.
Sem fyrr segir er það Austurbrú sem stendur fyrir heimsókn Einars en verkefnið er styrkt af SÚN – Samvinnufélagi útgerðarmanna í Neskaupstað og Afli Starfsgreinafélagi. Ókeypis er á báða fyrirlestrana.