Fyrrum formúlustjóri á Austurlandi?

Einkaþota Ron Dennis, fyrrum keppnisstjóra McLaren formúlu 1 liðsins, hefur verið á Egilsstaðaflugvelli í tæpa viku.

Flugvélin á Egilsstaðaflugvelli ber einkennisstafina G-REYS og er í eigu Greyscape, fyrirtækis Dennis. Það hefur hún verið nánast samfleytt frá því hún var framleidd árið 2000. Þotan er af gerðinni Bombardier Challenger 604.

Vélin kom hingað til lands síðasta laugardag frá Farnbourogh flugvelli, suðvestur af Lundúnum. Völlurinn er vinsæll fyrir einkaþotur og hafa vélar þaðan reglulega lent á Egilsstöðum.

Austurfrétt hefur ekki staðfestingu á hvort Dennis hafi komið sjálfur í ferðinni né hver tilgangur ferðarinnar austur sé.

Í viðtali við tímaritið Spear‘s árið 2009 lýsti Dennis G-REYS sem „framlengingu á heimilinu“. Þar kemur einnig fram að hann sé áhugasamur listsafnari og skreppi reglulega á sýningar á þotunni.

Viðtalið snýst að miklu leyti um ríkidæmi hans og ævistarf, en samkvæmt lista Sunday Times frá í fyrra er Dennis í 304. sæti yfir ríkustu Bretana en þar er auður hans metinn á 450 milljónir punda, eða rúma 78 milljarða króna.

Þekktastur er Ron Dennis fyrir að hafa verið framkvæmdastjóri McLaren-liðsins í Formúlu 1 á árunum 1981-2009. Segja má að Dennis hafi byggt liðið upp frá grunni en það átti eftir að vinna fjölda heimsmeistaratitla, bæði í flokki bílaframleiðenda og ökumanna með menn eins og Niki Lauda, Mika Häkkinen og Lewis Hamilton undir stýri.

Dennis hefur jafnframt komið víða við sem fjárfestir, svo sem í lúxusúrsmiðnum TAG Hauer auk þess sem hann er viðskiptasendiherra fyrir breska ríkið. Hann hefur einnig komið að góðgerðamálefnum og gaf í vor rúma eina milljón punda til að tryggja að heilbrigðisstarfsfólk hefði nóg að borða á löngum vöktum í baráttunni við Covid-19.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.