Skip to main content

Fyrsta viðarkyndistöð landsins ræst í Hallormsstað á morgun

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. nóv 2009 12:49Uppfært 08. jan 2016 19:20

Á morgun, fimmtudaginn 19. nóvember, verður formlega opnuð viðarkyndistöð á Hallormsstað á Fljótsdalshéraði. Kyndistöðin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.  Notað er viðarkurl úr næsta nágrenni til upphitunar á grunnskóla, hússtjórnarskóla,  íþróttahúsi, sundlaug og hóteli í fyrsta áfanga verkefnisins.

kurlkyndist_vefur.jpg

Verkefnið hefur verið í undirbúningi í nokkur ár og er það fyrirtækið Skógarorka ehf. sem hefur veitt því forstöðu. Fjölmargir aðilar hafa komið að uppbyggingu stöðvarinnar.

 

Í fréttatilkynningu frá Skógarorku ehf. segir að með tilkomu kurlhitaveitu skapist störf í nálægum skógum við skógarhögg og vinnslu.  Kurlhitaveitan kaupir hráefni af skógarbændum og skapar þar með markað fyrir annars verðlitla afurð (grisjunarvið). 

skgarorka.jpg

 

Verðmætasköpun í skógrækt:  Markaður verður til fyrir nýja afurð á Íslandi,  þ.e. afurðir fyrstu grisjunar til orkuframleiðslu. Það hefur mikla þýðingu fyrir skógræktargeirann í heild sinni. Verkefnið stuðlar að grisjun skóganna og þá um leið verðmætara timbri síðar meir. Einnig nýtast vel hirtir skógar betur til útivistar. Verkefnið krefst þess að vinnubrögð við skógrækt halda í við tæknilegar framfarir.  

 

Umhverfismál: Kurlhitaveitur hafa síðustu ár verið að ryðja sér til rúms víða um heim sem umhverfisvænn (kolefnishlutlaus) orkugjafi. Í Evrópu er eftirspurn eftir timbri sem orkugjafa orðin mjög mikil. Með kurlhitaveitu á Hallormsstað er lagður grunnur að sjálfbæru samfélagi sem nýtir sitt nánasta umhverfi til orkugjarfar. Vert er að benda á að hluti þeirrar orku sem hingað til hefur verið notuð til kyndingar á Hallormsstað er mengandi jarðefnaeldsneyti (rúmlega 13.000 lítrar af olíu fyrir grunnskólann árið 2008).

  

Kurlkyndari stöðvarinnar er frá þýska fyrirtækinu Heizomat, sem hefur áratuga langa reynslu af framleiðslu af þessu tagi.