Fyrsti hópur jarðvísindanema í Breiðdalssetri

Fyrsti stúdentahópurinn sem kemur í Breiðdalssetur til rannsókna og náms eftir að setrinu var komið á fót dvaldi þar í lok ágúst og byrjun september. Hópinn leiddi Þorvaldur Þórðarson, prófessor í jarðvísindum við Háskólann í Edinborg. Lögð var áhersla á að skoða gosbergsmyndanir og gosbergsstafla. Þorvaldur segir gríðarmikla möguleika felast í Breiðdalssetri og jarðfræðisafni Georges Walker.

orvaldur_samt_nemum_og_ian_gibson.jpg

Þorvaldur kom ásamt frönskum kollega sínum með fimm nema sem lokið hafa hefðbundnu jarðvísindanámi og eru nú í eins árs mastersnámi sem undirbúningi fyrir doktorsnám. Mastersnáminu fylgir ferð út í náttúruna til að skoða hlutina á vettvangi. ,,Þegar setrið á Breiðdalsvík var komið í gang með góðri aðstöðu varð ofan á að fara með hópinn hingað,“ segir Þorvaldur. Hópurinn dvaldi í sex daga við nám og athuganir. ,,Hér er frábær jarðfræði og mögulegt að skoða hana frá öðru sjónarhorni en vant er, það er að segja í þriðju vídd og þá einkum í eldfjallafræðinni. Við erum með mörg virk eldfjöll um allan heim sem unnt er að skoða, en einvörðungu á yfirborði. Hér sér maður þversniðið á jarðlögum og eldstöðvum. Ég setti því ferðina saman þannig að við myndum verja mestum tíma hér og byggja okkar athuganir og nám á þeim grunni sem Walker lagði með rannsóknum sínum á svæðinu. Þremur dögum verjum við svo á Mývatni og í Öskju til að gefa nemunum mynd af því hvernig virkt svæði lítur út.“

Samkeppnin um háskólahópa í námsferðir er hörð og segir Þorvaldur Ítalíu, Grikkland og Tyrkland vinsæl svæði. Ísland eigi stórkostlega möguleika á þessum vettvangi en það sé líkt og margt annað spurning um markaðssetningu. Hann reiknar með að framhald verði á komu jarðvísindanema frá Edinborgarháskóla í Breiðdalssetur og væntanlega verði hóparnir þá fjölmennari.

-

Mynd: Þorvaldur Þórðarson prófessor við Edinborgarháskóla ásamt jarðfræðinemendum og dr. Ian Gibson í Jarðfræðisafni George Walker í Breiðdalssetri./SÁ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar