Gæti ekki sett saman ferskeytlu þó lífið lægi við

Jón Knútur Ásmundsson, Norðfirðingur og upplýsingafulltrúi hjá Austurbrú, fékk í gær viðurkenningu fyrir tvö ljóð í ljóðasamkeppninni Ljóðstafur Jóns úr vör. Jón Knútur sækir yrkisefni ljóða sinna úr hversdagslegum aðstæðum fremur en til að mynda fegurðar austfirskrar náttúru, sem hann segist blindur á, hafandi alist upp með hana fyrir augunum. Ungar íslenskar skáldkonur, húmor þeirra og hæfileikar, urðu Jóni Knúti hvatning til ljóðagerðar.

Jón Knútur segir í samtali við Austurfrétt að hann hafi ekki áður sent ljóð í ljóðasamkeppnir. „Og ég ætlaði ekkert að senda þessi. Konan mín hvatti mig til þess og ég sendi inn, held ég bara daginn sem fresturinn rann út, þrjú ljóð og tvö fengu viðurkenningu.“

Er ekkert ungskáld

Jón Knútur segir að hann hafi farið yrkja fremur seint á lífsleiðinni. „Ég 48 ára, ég er ekkert ungskáld. Ég byrjaði að blogga, þegar það var í gangi einhvern tíma um 2000. Svo þróast þetta þannig að ég fór í blaðamennsku, svona helgar blaðamennsku, ég er ekki alveg á heimavelli í fréttunum en fílaði mig í að skrifa einhver viðtöl og umfjallanir. Svo var ég að vinna upp á RÚV um tíma, í útvarpi og dagskrárgerð, þannig að ég var alltaf eitthvað að skrifa.

Svo gerist það að ég las nokkrar ljóðabækur, eftir Ingunni Snædal og Kristínu Svövu Tómasdóttur, fyrir svona tíu árum síðan. Þá kveiki ég á því að það sem ég var að skrifa voru ljóð. Ég, eins og kannski margir, fékk þannig kennslu í menntaskóla að ljóðakennslan var hátíðleg og tekin alvarlega og þetta var ekki skemmtilegt. Svo kemst ég að því seinna með eigin forvitni að þetta form, ljóðið, það er alls konar. Ljóð mega vera fyndin, eru oft drepfyndin, og mörg okkar bestu skálda eru mjög skemmtileg. Þannig fór ég að yrkja.“

Jón Knútur gaf út ljóðabókina Stím árið 2022 en áður hafði hann gefið út smásagnasafnið Nesk árið 2007. „Margir textar í Stím byrjuðu bara sem blogg eða Facebook færslur sem ég síðan meðhöndla áfram.“

Fjallar um hversdagslífið

Spurður hvaða formgerð hann fylgi í ljóðagerðinni, hvort hann geti til að mynda kastað fram stöku, svara Jón Knútur pínu raunamæddur: „Ef þú beindir að mér byssu og skipaðir mér að setja saman haganlega orta ferskeytlu þá gæti ég það samt ekki. Ég get ekki sett saman vísur eða ferskeytlur. Svo mín ljóð eru í óhefðbundnu formi.“

Jón Knútur segist fjalla um hið hversdagslega í sínum ljóðum. Hann fáist þannig lítið eða ekki við náttúrustemmur. „Þetta eru ljóð um hversdagslífið, eitthvað fangar ímyndunaraflið þegar manni tekst að vera vakandi og næmur fyrir umhverfinu. Sem mér tekst alls ekki alltaf. En þegar það tekst þá koma einhver leiftur, ég geng með vasabók á mér og punkta niður. Stundum verður þetta eitthvað og stundum ekki. Oftast ekki. Austurland er fallegur landshluti, umhverfið fallegt, fjöllin falleg. Ég er fæddur hérna og uppalin svo ég er blindur á þessa hluti en svo geng ég um í Kópavogi og horfi á einhver logo í Bæjarlind sem vekja athygli mína, ég heyri samtal milli afgreiðslumanns og viðskiptavinar í plötubúð sem fanga athygli mína. Þetta eru viðbrögð við hversdagslegum aðstæðum.

Ég eignast líka börn frekar seint, þegar ég er 38 ára og 42 ára, og þau eru endalaus uppspretta af einhverjum undarlegum uppákomum, sem hafa orðið kveikjan að ýmsu. Þetta kemur héðan og þaðan en ég get ekki sett saman ferskeytlu eða vísu eða söngtexta, það er mér algjörlega ofviða.“

Jón Knútur segist vera sí skrifandi, en ekki þannig að allt það eigi að enda í bókum. Það hylli samt undir útgáfu nýrrar ljóðabókar, á þessu ári. „Ég þarf að gíra mig smá upp í það, koma mér í stuð að fara í gegnum það ferli allt saman, lúslesa handrit og setja saman.“

Viðvarandi gróska í austfirskri ljóðagerð

Blaðamaður heldur því fram að töluverð gróska hafi verið í ljóðagerð á Austurlandi um allnokkurt skeið, og nefnir til sögunnar Félag ljóðaunnenda á Austurlandi og einnig ljóðahópinn Hása kisa. Sá var töluvert virkur fyrir á síðasta áratug, skipaður þeim Ingunni Snædal, Stefáni Boga Sveinssyni, Hrafnkeli Lárussyni og Ásgrími Inga Arngrímssyni. Jón Knútur samsinnir þessu. „Þetta er alveg rétt. Ég held að Austfirðingar séu duglegir að yrkja. Ég hef tilgátu í þessum efnum og hún er sú að við sem búum erum auðvitað flest í fullri vinnu og að fást við ýmislegt, eins og þetta er í litlum samfélögum eru allir með marga hatta. Það að setjast niður og skrifa heila skáldsögu krefst mikils tíma og athygli, er mikil skuldbinding, á meðan ljóðið fer kannski betur með hinu daglega lífi. Það er hægt að sinna því part úr degi, grípa í það hér og þar. Austfirðingar eru töluvert fyrir ljóðið.“

Hér að neðan má lesa annað tveggja ljóða sem Jón Knútur hlaut viðurkenningu fyrir, ljóðið Fálæti, en skopskyn dóttur Jóns Knúts var kveikjan að því. Austurfrétt óskar Jóni Knúti til hamingju með viðurkenningarnar.

Fálæti

Ég reyni
að kynnast þeim ekki of vel
fiskum dóttur minnar
er fjarrænn
jafnvel kuldalegur

því þegar einhver andast
er ég sóttur
til að fjarlægja líkin

börnin
þau kalla mig
„manninn með háfinn“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar