Garnaveiki staðfest í Fáskrúðsfirði

Héraðsdýralæknir lógaði í seinustu viku þremur ám á Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði vegna gruns um garnaveiki, sem síðar var staðfestur við krufningu. Búist er við að bólusetning við garnaveiki hefjist að nýju á svæðinu.

 

ImageSíðast var bólusett við garnaveiki haustið 2005 en þá hafði ekki fundist garnaveiki á svæðinu suður að Hamarsá í áratugi. Kindurnar, sem lógað var, voru fæddar 2006 og 7. Hákon Hansson, héraðsdýralæknir á Breiðdalsvík, segir að á næstu dögum verði teknar blóðprufur til að kanna hvort fleiri kindur hafi smitast. Bændum í Fáskrúðsfirði hefur verið tilkynnt um málið skriflega og fundað verður um framhaldið í næstu viku. Hann reiknar með að bólusetning við garnaveiki hefjist aftur á svæðinu.

Umhverfis- og héraðsnefnd Fljótsdalshéraðs samþykkti á fundi sínum í vikunni bókun þar sem þess er krafist að Matvælastofnun afturkalli strax ákvörðun sína um að leggja niður sauðfjárveikivarnalínuna, sem nefnd hefur verið Reyðarfjarðarlína, meðal annars í ljósi staðfestrar garnaveiki í fyrrum Austfjarðahólfi sem Fáskrúðsfjörður tilheyrði.

Samkvæmt auglýsingu stofnunarinnar frá í október verða Héraðs- og Austfjarðahólf sameinuð í Héraðshólf sem nær frá austurbakka Jökulsár í Fljótsdal/Lagarfljós og suður til Hamarsár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar