Gerir brúðuföt til minningar um dótturdótturina og sýnir til styrktar góðu málefni

anna_markrun_dukkusyning_web.jpg
Anna Markrún Sæmundsdóttir byrjaði að sauma og prjóna brúðuföt fyrir ellefu árum til minningar um dótturdóttur sína. Hún sýnir safnið í Neskaupstað um páskahelgina til styrktar góðu málefni. Hún segir ómögulegt að velja einn uppáhaldsgrip úr safninu.

„Þetta er til minningar um dótturdóttur mína, Önnu Rún, sem lést árið 1989 eftir langvarandi veikindi, aðeins 13 ára gömul. Mér datt þetta í hug eftir að hafa hugsað lengi og leitað í huga mínum að einhverju óvenjulegu, sem ekki hafði verið gert áður. Ég er fyrst til að halda sýningu á brúðufötum,“ segir Anna.

„Mér þykir mjög vænt um allt saman og ég hef haft mjög gaman að vinna þetta, maður gerir ekki upp á milli barnanna sinna,“ segir Anna sem býr á Hjarðarholti í Dölum og kom með safnið þaðan.

Brúður sýningarinnar eru mjög fjölbreyttar. „Ég sauma upp úr öllu mögulegu, bæði nýju og notuðu” sagði Anna og benti Austurfrétt á kjóla sem saumaðir voru úr blússum og einn úr gamalli spariskyrtu af tengdasyni hennar.  

Þegar Anna kom austur passaði ein dúkkan ekki í buxur sem hún hafði saumað, svo hún gerði sér lítið fyrir og prjónaði á hana buxur og húfu og heklaði vesti.

Á sýningunni eru 120 upp á klæddar dúkkur og álíka mörg sett á borðum. „Börn bæjarins lánuðu mér dúkkurnar og Georg Jensen klúbburinn klæddi þær í.“

Lokadagur sýningarinnar er á morgun, páskadag frá klukkan 14-18 í Þórsmörk í Neskaupstað. Aðgangseyrir er 1.000 krónur, frítt fyrir börn 12 ára og yngri og allur ágóði mun renna óskiptur til Krabbameinsfélags Austfjarða. 

Þetta er þriðja sýning Önnu á fötunum sínum. Fyrri sýningar hafa einnig verið til styrktar góðra málefna, ágóði þeirra rann til Umhyggju. Anna segir þó að draumurinn sé að byggja upp safn sem sé lengur opið og fleiri geti notið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar