Gestrisni Helgu á Hengifossi til umfjöllunar í þýskri ferðahandbók

„Helga tekur á móti fólki af mikilli alúð og hlýju og lætur sig ekki muna um að elda morgun- eða kvöldverð fyrir gesti ef þess er óskað með fyrirvara.“*

Nokkurn veginn svona hljóðar setning í vinsælli þýskri ferðahandbók um Ísland fyrir húsbílaeigendur en sú bók er gefin út í þúsundum eintaka í því landi ár hvert.

Það í sjálfu sér ekki óalgengt að leiðsögumenn erlendra ferðamannahópa skrái í sínar eigin handbækur upplýsingar um staði og fólk sem gott er að vita af á ferðum þeirra um landið. Það hins vegar sjaldgæft að mælt sé sérstaklega með vert einum á litlu gistihúsi í raunverulegri ferðahandbók. Þar um að ræða Helgu Vigfúsdóttur, vert í Hengifoss Guesthouse í Fljótsdal.

Þar birtust fyrr í þessum mánuði þýsk hjón en ekki til að gista heldur spurðu sérstaklega eftir Helgu og hvort hún gæti tekið á móti þeim í mat tveimur dögum síðar.

„Þetta kom dálítið flatt upp á mig þegar þau komu hingað fyrst,“ segir Sigríður Helga Stefánsdóttir, sem rekur gistihúsið ásamt Helgu. „Það er ekki algengt að fá slíkar fyrirspurnir en ég sagði þetta minnsta mál og skráði hjónin niður í mat. Svo hugsuðum við ekki meira um það en svo mæta þau þarna tveimur sólarhringum síðar og í spjalli við þau kemur í ljós að þau eru að eltast við Helgu vegna þess að hennar er sérstaklega getið í þessari þýsku ferðahandbók. Þar er hún lofuð fyrir elskulega þjónustu og góðan mat og þess vegna vildu hjónin hitta hana og borða hér. Það gerðu þau og fóru héðan afar sátt eftir matinn. Létu svo auðvitað taka mynd af sér með Helgu svona í kaupbæti til minningar. Virkilega gaman að svona uppákomum.“

* Þýðing ritstjórnar

Forsíðumynd: Þýsku hjónin með Helgu áður en þau héldu ferð sinni áfram um Ísland. Mynd aðsend

Mynd 2: Sigríður Helga fékk að smella mynd úr ferðahandbók Þjóðverjanna þar sem mælt er með stoppi hjá Helgi í Hengifoss Guesthouse en rúmar tvær síður bókarinnar eru helgaðar Fljótsdal og nærliggjandi svæðum. Mynd aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.