Gleðistund þegar horfin læða fannst aftur eftir fjóra mánuði
Það var ekki laust við bros á vörum þeirra sem fundu læðuna Fluffy á gámasvæðinu á Reyðarfirði seint í síðasta mánuði en hennar hafði þá verið saknað af eigandanum um fjögurra mánaða skeið. Ekki aðeins fannst Fluffy sjálf heldur og nýgotinn kettlingur hennar.
Fluffy hvarf að heiman frá eiganda sínum á Reyðarfirði í júlí síðastliðnum og þrátt fyrir mikla leit og auglýsingar eftir kisu af hálfu eigandans þá virtist sem jörðin hefði gleypt hana. Sorgin enn meiri fyrir þá sök að eigandi Fluffy flutti í haust frá Reyðarfirði og suðvestur á land.
Það voru svo samtökin Villikettir á Austurlandi sem höfðu upp á Fluffy seint í nóvembermánuði en starfsmaður á gámasvæðinu lét vita af ketti einum sem hafði komið sér fyrir í vegg í flokkunarskemmu og gotið þar. Reyndist þar kominn Fluffy en þrátt fyrir´drjúga leit í kjölfarið fannst aðeins einn kettlingur.
Sonja Rut Rögnvaldsdóttir, einn forsvarsmanna samtakanna, segir að skamman tíma hafi tekið að finna Fluffy en þeir sem að komu þorðu ekki öðru en taka kettlinginn skamma stund í upphafi, gefa honum pela og fylgjast svo með gegnum eftirlitsmyndavél hvort fleiri kettlingar létu sjá sig.
„Við skiluðum þá kettlingnum til hennar en fylgdumst áfram vel með á myndavélum því við vildum ekki fanga læðuna fyrr en búið var að útiloka að hún væri með fleiri kettlinga á öðrum stað. Eftir tvo daga var ljóst að aðeins var um þennan eina kettling að ræða og þá settum við upp fellibúr, náðum læðunni fljótt og sóttum kettlinginn aftur inn í vegginn. Læðan var skítug eftir vergang síðustu mánaða en annars vel haldin og mjólkaði vel og kettlingurinn hraustur og sprækur.
Fluffy og kettlingur hennar hafa þegar fengið nýtt heimili hér á Austurlandi.
Fjögurra mánaða útivera er töluverð raun fyrir ketti og ekki hvað síst í þeim töluverðu kuldum sem ríkjum réðu austanlands stóran part nóvembermánaðar. Mynd Villikettir á Austurlandi