![](/images/stories/news/2016/Jólaskreytingar_á_aðalverkstæði.jpg)
„Gleðjumst daglega yfir þessari óvæntu upplyftingu“
„Við vorum allir mjög ánægðir með þetta, en svona lagað lífgar alltaf upp á tilveruna og gaman að sjá hugmyndaflugið á bak við þetta,“ segir Þórormur Óskarsson, umsjónarmaður olíuinnkaupa og verkfæralagers Alcoa Fjarðaáls, en starfsmönnum á aðalverkstæði fyrirtækisins var komið á óvart á aðventunni með skemmtilegum jólaskreytingum.
Líflegur jólaundirbúningur er innan Alcoa Fjarðaáls, fjölmennasta vinnustaðar fjórðungsins. Starfsmenn koma saman á glæsilegum jólaskemmtunum þar sem 200 piparkökuhús voru máluð í ár. Sterk hefð hefur einnig myndast fyrir skógarhöggi Sóma, starfsmannafélags álversins, þar sem félagsmönnum býðst að höggva sitt eigið tré sem í ár voru á landi Sigrúnar Ólafsdóttur skógarbónda í Brekkugerði vestan við Lagarfljót, en samhliða búskap og skógrækt vinnur Sigrún í kerskála Fjarðaáls.
Jólaskraut úr öryggisborðum og álpappír
Starfsmenn álversins eru einnig hugmyndaríkir þegar kemur að skreytingum vinnustaðarins. Starfsmönnum aðalverkstæðisins var komið skemmtilega á óvart á aðventunni þegar Anna Leja, sem kemur frá Póllandi og vinnur hjá Fjarðaþrifum, tók sig til og gerði mjög frumlegar jólaskreytingar. Hún bjó til skraut á jólatréð úr öryggisborðum og verkfærum úr álpappír, sem hún merkti starfsmönnum á aðalverkstæðinu. Einnig bjó hún til snjókarl úr plastglösum og skrifaði orðsendingar á pólsku, ensku og íslensku.
Höfðu ekki hugmynd um fyrirætlanir Önnu
Þórormur Óskarsson frá Fáskrúðsfirði fagnar tíu ára starfsafmæli sínu innan Fjarðaáls í mars. Hann segir uppátækið skemmtilegt og aldrei hafa verið gert áður.
„Við tókum frumkvæði Önnu fegins hendi og gleðjumst daglega yfir þessari óvæntu upplyftingu á umhverfinu og hlýjum kveðjum frá Póllandi. Við höfðum ekki hugmynd um þessar fyrirætlanir hennar og erum mjög þakklátir."
Aðspurður hvort starfsmenn búist ekki við samskonar skreytingum að ári segir Þórormur; „Ja, það er aldrei að vita, kannski bara, þó svo það verði kannski ekki nákvæmlega eins.“