Orkumálinn 2024

Glimrandi undirtektir við barnasýningu Íslenska dansflokksins í Egilsbúð

„Það voru svo glimrandi góðar undirtektir að við þurftum að hafa okkur öll við að bæta við stólum í salnum eins og hægt var og staðurinn var alveg pakkaður af foreldrum og börnum,“ segir Jóhann Ágúst Jóhannsson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar.

Íslenski dansflokkurinn sýndi sérstakt verk sitt Dagdraumar í Egilsbúð í gær við vægast sagt frábærar undirtektir en hópurinn hefur verið um tíma hér fyrir austan og til að mynda haldið sérstakar danssmiðjur fyrir börnin í sveitarfélaginu.

Fór flokkurinn meðal annars í grunnskólann á Reyðarfirði og bauð nemendum inn í íþróttasal til að taka nokkur dansspor og var vel tekið í það af hálfu nemendanna sem dilluðu sér allir sem einn.

Jóhann segir marga flotta viðburði framundan sem ástæða er til að berja augum ef fólk á þess kost.

„Á sunnudaginn kemur ætla þau Berta Dröfn Ómarsdóttir, sópransöngkona og Svanur Vilbergsson, gítarleikari, að halda tónleika undir heitinu Djúpsins ró. Það er viðburður sem áhugasamir ættu ekki að láta fram hjá sér fara en á efnisskránni eru lög eftir marga þekkta tónsmiði og bæði innlenda og erlenda. Á þriðjudaginn kemur verður svo sýnt nýtt barna- og þátttökuverk í Valhöll á Eskifirði. Verkið heitir Manndýr og þar er skoðað hlutverk manneskjunnar í heiminum með augum barna og á milli atriða geta gestir að hluta tekið þátt.

Þá minnir Jóhann á hina austfirsku Daga myrkurs sem hefjast í lok mánaðarins en enn er verið að púsla saman þeirri dagskrá sem þar verður í boði.

Varla var auður blettur í Egilsbúð þegar Íslenski dansflokkurinn sýndi þar verk sitt Dagdraumar. Mynd Menningarstofa Fjarðabyggðar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.