Glitský dag eftir dag yfir Austurlandi

Glitský hafa sést reglulega yfir Austurlandi síðan á Þorláksmessu. Glitský myndast reglulega vegna kulda í heiðhvolfinu en veðrið neðar í háloftunum ræður því hvort þau sjást af jörðu neðan.

Glitskýin bættust í jólaljósaflóruna á Þorláksmessu og sáust þá víða af Austurlandi. Þannig bárust Austurfrétt þá tíðindi víða af Héraði, Borgarfirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði svo dæmi séu tekin.

Glitskýin voru áfram sýnileg reglulega milli jóla og nýárs og áfram inn í nýja árið. Þau hafa blasað við Héraðsbúum og fleirum núna þrisvar sinnum á fjórum dögum.

Skýin hafa verið missterk, þau sem voru á Þorláksmessu voru öflug sem og síðustu daga en aðra daga hafa þau verið fá og lítil en engu að síður sýnileg.

Glitský sjást helst í landátt


Í samantekt á Veðurstofu Íslands kemur fram að glitskýin myndist vart í heiðhvolfinu fyrr en þar er komið 80 stiga frost. Heimildir eru um þau hérlendis allt aftur á 17. öld þótt tíðni þeirra virðist hafa aukist síðustu áratugi. Leiddar eru líkur að því að aukin tíðni þeirra tengist loftslagsbreytingum.

Þau sjást helst í desember og janúar og þar á eftir í febrúar. Þau myndast einnig í nóvember og mars en mun sjaldnar. Eitt er að þau myndist, annað að þau sjáist. Til þess mega neðri ský ekki skyggja. Helst er það í landáttum sem það gerist en sunnanáttir hafa verið ríkjandi undanfarnar vikur í bland við norðanáttir með kulda á Austurlandi.

Yfir 15 stig á Seyðisfirði og Dalatanga


Hjá Veðurstofu Íslands fengust í dag þær upplýsingar að glitskýin bendi til þess að óvenju kalt sé í heiðhvolfinu og að þau séu þetta algeng sé samspili verðakerfa. Ekkert sérstakt í þeim skýri tíðnanna yfir Austurlandi síðustu vikur, annað en að loftslag hafi verið stöðugt þannig þau hafi sést.

En þótt glitskýin myndist helst í miklum kulda í mikilli hæð þá þurfa þau ekki að þýða að kalt sé á jörðu niðri. Hitinn á Egilsstöðum klukkan 16 í dag var rúmar sex gráður, en hann varð mestur á Mjóafirði og Seyðisfirði snemma í morgun þegar hann fór í yfir 15 gráður. Það er vel í lagt miðað við árstíma.

Myndir frá Egilsstöðum í dag og úr Fljótsdal á Þorláksmessu þegar glitskýjavertíðin hófst.

Glitsky 20250115 0009 Web
Glitsky 20250115 0022 Web
Glitsky 20250115 0025 Web
Glitsky Vegardur 20241223 0007 Web



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar