Glæpur og samviska : Ný kvikmynd eftir Ásgeir Hvítaskáld
Næstkomandi föstudag, 25. mars, verður frumsýnd í Valaskjálf á Egilsstöðum ný íslensk kvikmynd í fullri lengd. Myndin ber nafnið "Glæpur og samviska" og fjallar um ógæfusamt fólk sem lendir á villigötum.Leikarahópurinn samanstendur af áhugaleikurum
Myndin hefur verið fjögur ár í vinnslu. Árið 2007 hafði Ásgeir Hvítaskáld, leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar, samband við Leikfélag Fljótsdalshéraðs með ákveðna hugmynd sem hann langaði til að vinna með. Fljótlega fór boltinn að rúlla og fann Ásgeir áhugaleikara bæði innan Leikfélagsins og utan þess. Leikararnir hafa mismikla reynslu og eru sumir þeirra að stíga sín fyrstu skref, en að sögn hefur allt gengið vonum framar.
Leiksviðið stórbrotið landslag Austurlands
Leiksvið myndarinnar er stórbrotið landslag Austurlands, en hún er alfarið tekin upp þar. Leikhópurinn leitaði víðsvegar að tökustöðum og að sögn Ásgeirs var þeim alls staðar tekið opnum örmum. Myndin er framleidd með styrkjum frá Menningarráði Austurlands og fyrirtækjum af Austurlandi.
Kvikmyndalistin Ásgeiri ekki ókunn
Ásgeiri er kvikmyndalistin ekki ókunn. Hann lærði kvikmyndagerð í Danmörku og hefur gert 12 heimildar- og stuttmyndir sem hlotið hafa viðurkenningar víða um heim. Það er kvikmyndafélagið Frjálst orð sem sér um framleiðslu myndarinnar sem er 131 mínúta að lengd.
Leikarar af ýmsum toga
Helstu leikarar eru Jón Gunnar Axelsson, Sigurður B. Arnaldsson, Sigurður Ingólfsson, Anna Björk Hjaltadóttir, Þór Ragnarsson, Fjóla Egedía Sverrisdóttir og síðast en ekki síst tónlistarmaðurinn Bjartmar Guðlaugsson. Tónlist myndarinnar er meðal annars í höndum Björns Thoroddsen, Margrétar Eirar og Svavars Knúts.
Kynningarmyndband um kvikmyndina má sjá hér: http://www.youtube.com/watch?v=qMc8ctt0tPU&NR=1
Sýningartíma og frekari upplýsingar má finna hér: http://www.facebook.com/event.php?eid=133024776769684&index=1