Góður árangur austfirskra liða í Lego-keppninni - Myndir
Brúarásskóli fékk verðlaun fyrir liðsheild, Seyðisfjarðarskóli fyrir besta nýsköpunarverkefnið og Vopnafjarðarskóli varð í öðru sæti í heildarkeppni First Lego League sem haldin var í Háskólabíói um síðustu helgi.Dodici-, lið Vopnafjarðarskóla, hefur unnið keppnina síðustu tvö ár. Nú var komið að nýju liði úr Garðaskóla. Vopnafjarðarliðinu gekk hins vegar mjög vel.
Vopnfirðingar urðu í 2. – 3. Sæti heildarkeppninnar ásamt liði Landakotsskóla. Liðin deildu einnig sæti í vélmennakappleik, það er hversu vel vélmenni þeirra gekk að leysa þrautirnar sem lagt var upp með. Þá varð Dodici- í 2. – 3. sæti með Háaleitisskóla þegar dæmt var á hversu skapandi hátt þau forrituðu þjarkinn.
Þræðirnir, lið Brúarásskóla fékk verðlaun fyrir bestu liðsheildina. Þau verðlaun eru veitt fyrir liðsanda, samvinnu og virðingu innan liðs, en einnig fyrir stuðning og hvatningu við mótherjana. Dodici- varð þar í þriðja sæti.
El Grilló úr Seyðisfjarðarskóla fékk fyrstu verðlaun fyrir besta nýsköpunarverkefnið. Í keppninni hvert ár er þema og var það að þessi sinni „meistarastykki,“ með vísan í menningu og listin. Liðin áttu að kanna listheiminn og finna nýjar leiðir til að miðla henni. Verðlaunin í þessum flokki eru veitt til liða fyrir áhugaverðar og frumlegar lausnir á viðfangsefninu auk þess að sýna að nemendur hafi lagt vinnu í að kynna sér það.
Alls tóku sextán lið þátt. Að austan voru fjögur lið, auk þeirra sem nefnd eru sendi Brúarásskóli annað lið sem bar nafnið Skvísurnar. Landakotsskóli var hinn skólinn sem sendi tvö lið. Keppendur eru í efri bekkjum grunnskóla, á aldrinum 10-16 ára.
Myndir: Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson