Golfvöllur gjaldþrota
Golfklúbburinn á Eskifirði er gjaldþrota. Svæðisútvarpið á Austurlandi sagði frá því í gær að myntkörfulán sem tekið var til að fjármagna framkvæmdir við uppbyggingu golfvallarins á Eskifirði hefði sligað reksturinn í kjölfar hrunsins í október í fyrra. Óskað hefur verið eftir að klúbburinn verði tekinn til gjaldþrotaskipta.
Golfklúbburinn hefur aðsetur í Byggðarholti en Fjarðabyggð á bæði landið og húsnæði klúbbsins. Í sumar var brugðið á það ráð að stofna nýjan golfklúbb undir nafninu Gríma. Skuldir voru færðar yfir á nýja klúbbinn og búast má við að hann verði gerður upp sem þrotabú. Golfklúbbur Eskifjarðar verður því áfram starfræktur á nýrri kennitölu. Heildarskuldir nema um 55 milljónum króna. (www.ruv.is)