Gott í gogginn: Teriaki- urriði og fleira gott
Austurglugginn er í sumarskapi og gaukar að lesendum blaðs og vefs ómótstæðilegum sumaruppskriftum til að gleðja munn og maga um helgina. Matgæðingur Austurgluggavefsins að þessu sinni, Ævar Dungal, lætur okkur í té sannkallað sólargóðgæti, enda von á brakandi blíðu um helgina.
Forréttur að hætti Ævars:
Ruccolasalat (klettasalat)
tómatar
paprika
soðin egg
bréf af kurluðu beikoni
humar
Grænmetið lagt í hreiður. Soðin egg lögð hringinn. 1 bréf af kurluðu beikoni steikt og því stráð yfir. Humar bakaður í þremur matskeiðum af Hony Mustard Barbeque olíu og settur á hreiðrið. Í sósu með þessu fer 1 peli rjómi á móti 2 msk Hony Mustard Barbeque olíu. Gott er að hafa hvítlauksbrauð með forréttinum.
Teriaki-marineraður urriði
Ca 6 punda urriði eða 4 stk. 250 g stykki pr. mann
1 flaska teriaki-sósa
1 sítróna
Teriaki-sósu og safa úr sítrónu, ásamt rifnum berki af sítrónunni blandað saman. Fiskinum velt upp úr og látið marinerast í 4-6 tíma. Eldaður í eldföstu móti við 180 °C í 12-15 mínútur. Má einnig grilla.
Kartöflumús
4 bökunarkartöflur skrældar og soðnar
100 g smjör
1 peli rjómi
1 msk wasabi
1 búnt vorlaukur
salt og pipar
Rjómi, smjör og wasabi soðið saman og kartöflum bætt saman við og maukað. Vorlaukur saxaður og blandað saman við rétt áður en kartöflur eru bornar fram. Kryddað til eftir smekk með salti og pipar.
Ruccolasítrus-salat
1 poki ruccola salat
1 appelsína afhýdd og skorin í bita
1 grape ávöxtur afhýddur og skorinn í bita
Smá ólífuolía og balsamicedik (ca 2 msk af hvoru)
3 tómatar skornir í teninga, einnig má nota konfekttómata
salt og pipar
Rifnum parmesanosti bætt saman við í lokin
Ljúfur desert á fallegu sumarkveldi
1 kg vínber
1 msk. hunang
2 bollar sykur
1 bolli vatn
börkur af ½ sítrónu
2 staup af líkjör (t.d. Dom, Grand Marnier, Contrau)
1 staup koníak
safi úr ½ sítrónu
Vínberin skorin í tvennt og steinhreinsuð. Sykur og vatn soðið í þunnt sýróp. Hunangi bætt í. Kælt. Sítrónuberki, víni og sítrónusafa bætt út í. Þessu hellt yfir vínberin og látið standa til næsta dags. Borið fram með ísköldum þeyttum rjóma.
Verði þér að góðu